149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

hámarkshraði.

115. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Smára McCarthy, um að nýta tæknilausnir og reyna að stýra umferðinni svolítið þannig með tilliti til umhverfis og treysta ökumönnum með tilliti til aðstæðna. Eftir þessi svör samgönguráðherra er alveg ljóst í mínum huga — eftir að hafa greint og flysjað frá það sem hann sagði, sem var margt ágætt, fínn fróðleikur — að þetta ákvæði mun ekkert verða notað. Það er einfaldlega þannig. Það er einfaldlega það langt í að við ætlum að tvöfalda Reykjanesbrautina — samkvæmt áætlunum ráðherra er það 2033 — og ekki er heldur gert ráð fyrir umsvifum hjólreiðafólks né uppfyllingu þeirra viðmiða sem hafa verið sett í íslenskar reglugerðir.

Grunnsvarið hjá ráðherra er: Þetta verður heimild en hún verður einfaldlega ekki nýtt.

Ég velti líka fyrir mér: Hvaðan koma þessi viðmið? Hafa þau verið tekin frá Norðurlöndunum út frá öðrum aðstæðum en eru akkúrat hér heima? Sem betur fer leita Íslendingar líka til útlanda, þrátt fyrir að þeir séu ekki allir alltaf hressir með öll þessi alþjóðasamskipti. Íslendingar þurfa því að læra að keyra hraðar og kunna að keyra hraðar en 90. Ég held að það sé ein breyta sem við þurfum að taka inn í allt þetta, að við þurfum að kunna að keyra eftir aðstæðum. Aðstæður á erlendri grundu eru þannig að þar er verið að keyra hraðar en 90.

Að þessu öllu sögðu, og eftir að maður vegur og metur svör ráðherra, held ég að það sé nokkuð ljóst að ráðherra eigi ekki bara að einbeita sér að því að tvöfalda brautina heldur drífa upp lest til Keflavíkur.