149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lítil sláturhús.

192. mál
[17:15]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og þessum spurningum sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir beindi til ráðherra. Það hefur verið mér mjög hugleikið og okkur í mínum flokki hvað vandi bænda er búinn að vera mikill og langvarandi og lítið hefur skeð í jákvæða átt í þeim efnum. Þess vegna hef ég talað fyrir þeirri hugmynd að fjölga litlum sláturhúsum eða koma hugsanlegri heimaslátrun á fót, efla sölu beint frá býli og annað slíkt. Þá er ég að hugsa um byggðafestu, matvælaöryggi og fjölbreytni í framboði á kjöti.

Mér finnst þessi umræða mjög góð og styð þetta og hvet ráðherra eins og fram hefur komið til að horfa til þessara þátta, til aukinnar fjölbreytni í landbúnaðargeiranum, í sauðfjárbúskapnum.