149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lítil sláturhús.

192. mál
[17:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil fagna þessari fyrirspurn sem dregur fram það sem ég tel gríðarlega mikilvægt, að auka frelsi bænda frá núverandi kerfi í eins miklum mæli og það er hægt.

Með því er ég ekki að segja að við eigum að leggja niður núverandi kerfi, síður en svo. Það er stefna okkar í Viðreisn að við eigum að styrkja landbúnaðinn, jafnvel meira en nú er gert, en fyrst og síðast að stokka upp kerfið þannig að bændur sjálfir geti valið hvaða leiðir þeir fara. Það er ekki endilega þannig í dag. Ég veit það bara ágætlega af öllum mínum samtölum, m.a. á síðasta ári, við bændur sem stóðu frammi fyrir því að afurðastöðvarnar voru að rukka þá um hærra verð ef þeir ætluðu að nota skrokkana meira til heimavinnslu, þá var sláturverðið mun hærra.

Það þarf að endurskoða líka afurðastöðvakerfið gagnvart bændasamfélaginu og fyrst og síðast þurfum við að ýta undir alla svona sprota, ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, ýta undir alla sprota sem gera bændum kleift að lifa (Forseti hringir.) af greininni sem slíkri og koma fram með ýmsar afurðir sem verða síðan til þess að styrkja aðra hluti í samfélaginu, hvort sem það er ferðaþjónustan (Forseti hringir.) eða bara hið almenna líferni í okkar annars góða samfélagi.