149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lífrænn landbúnaður og ylrækt.

269. mál
[17:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, hún er góð og gagnleg að mörgu leyti. Það er augljóst að af ýmsu er að taka hér. Ég hef fengið fleiri spurningar í umræðunum en upphaflega voru beint tilefni umræðunnar, spurningar af ýmsum toga.

Ég vil nefna það hér strax að málefni garðyrkjunnar í landinu koma væntanlega til endurskoðunar á árinu 2019. Það er samningur þar, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, sem gildir 2017–2026, var gerður í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og tók gildi í upphafi árs 2017. Við erum að endurskoða hann og væntanlega verður tekið á ýmsum þáttum varðandi garðyrkjuna.

Ég vil taka undir það sem hv. málshefjandi nefnir sérstaklega í samantekt sinni sem snýr að menntun. Það er hárrétt, við eigum og verðum að gera betur á þessu sviði í Garðyrkjuskólanum, sömuleiðis í Landbúnaðarháskólanum, þeirri menntun sem við erum með þar. Ég segi bara: Fjöregg þessarar atvinnugreinar liggur þar. Við höfum einhvern veginn, ég veit ekki hvernig á því stendur, á undanförnum allmörgum árum — þetta er ekki að gerast í dag — setið eftir með landbúnaðarrannsóknir, vinnu og uppbyggingu vísindasamfélags á þessu sviði atvinnugreinanna. Ég hef rætt það við núverandi menntamálaráðherra að við ættum að skoða ákveðna þætti sem menntamálaráðherra hefur verið að ýta á, sem er hið besta mál.

Ég vil segja það hér í samantektinni að ég vænti þess að það sem gerist í lífrænum landbúnaði verði bara á einn veg. Hann mun ekki gera (Forseti hringir.) neitt annað en að vaxa. Það er vaxandi eftirspurn eftir þessari vöru, meiri skilningur á því á allan hátt. Ég hvet þingmenn til að standa með þeirri grein þegar á reynir og mál koma hér inn í þingið.