149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að ég hef mikla trú á því, og ég held við flest sem undir þetta nefndarálit skrifum, að hluti af því að byggja upp trúverðugleika sé einmitt gegnsæi. Gegnsæið varðar mikilvægi þess að hér séu lagðir fram ársreikningar og að hægt sé að nálgast þá. En það hefur lítið upp á sig ef erfitt er fyrir viðkomandi aðila að kynna sér innihald ársreikningsins. Þar af leiðandi leggjum við áherslu á mikilvægi þess að hann leggi þá líka fram á íslensku.

Hv. þingmaður vísar í umsögn aðila sem tala um ákveðinn kostnað sem því fylgir og færir rök fyrir því að ársreikningar kunni oft að vera flóknir. Eins og hv. þingmaður nefndi kunna þeir að vera upp á nokkra tugi blaðsíðna með fjölda skýringa. Það er alveg rétt og ég ætla ekkert að efast um að einhver kostnaður kunni að vera fólginn í því að þýða ársreikning, eins og t.d. hjá fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi, en mesti kostnaðurinn ætti að vera fólginn í fyrsta skiptinu sem það er gert. Eftir það eiga takmarkaðar breytingar sér stað, þó að þær séu vissulega einhverjar. Ef einhver fyrirtæki hefðu burði til þess að þýða ársreikning yfir á íslensku myndi ég halda að að það væru stór og öflug fyrirtæki eins og hv. þingmaður nefndi áðan, Marel.

En ég held að það sé líka mikilvægt að huga að því að það frumvarp sem við fjöllum um tryggir þann möguleika að hægt sé að hafa frumrit ársreikninga á ensku. Því að eins og lögin eru í dag er það ekki alveg ljóst. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram tryggjum við þann möguleika og auðveldum þar af leiðandi þessum fyrirtækjum samkeppnishæfni þeirra með því að hafa frumrit ársreikningsins á ensku. Ég ítreka að íslenskt eintak skal jafnframt berast ársreikningaskrá.