149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kom í máli gestanna sem rituðu þessa umsögn að þeir teldu ekki eftirspurn eftir ársreikningum á íslensku í ljósi þess að á ákveðnum tíma hefðu þessi fyrirtæki getað skilað inn ársreikningum eingöngu á ensku fyrir breytinguna sem gerð var í júní 2016. Þá hefði enginn óskað sérstaklega eftir ársreikningum á íslensku.

Ég kann svo sem ekki að skýra það frekar en vil bara leggja áherslu á að hér er um að ræða breytingu frá því sem er í dag þar sem þessi fyrirtæki geta ekki ekki skilað ársreikningi og haft frumrit hans á ensku. Þau verða að hafa það á íslensku samkvæmt túlkun ársreikningaskrár og við erum að opna á þann möguleika. Umsagnaraðilar segja: Við ættum að ganga enn lengra og ekki gera kröfu um íslenskt eintak til ársreikningaskrár.

Þetta var töluvert rætt í nefndinni. Eins og fram kom áðan vorum við velflest í nefndinni sammála um mikilvægi þess að ársreikningi skyldi skilað inn í ársreikningaskrá á íslensku. Ég verð að segja það hreint út að ég held meira að segja það sé ekki meiri hluti hér á þinginu fyrir breytingu eins og fram kemur í frumvarpinu ef ekki er gerð krafa um íslenskt eintak til ársreikningaskrár.

Hv. þingmaður sagði áðan að hann teldi þetta ekki bestu mögulegu niðurstöðuna, en ég held einmitt að þetta sé besta mögulega niðurstaðan vegna þess þetta tryggir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem eru í þeirri sérstöku aðstöðu að þurfa að hafa frumrit ársreikninga sinna á ensku. En eins og ég segi ítrekum við jafnframt mikilvægi íslenska eintaksins.