149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég svari seinni hluta spurningar hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur þá gilda íslensk lög á Íslandi, en við erum á margan hátt engu að síður háð gjaldskrá Alþjóðapóstsambandsins sérstaklega, sem setur gjaldskrá um m.a. pakkasendingar á milli landa. Þess vegna er verið að bregðast við í þessu frumvarpi og reyna að hafa meiri sveigjanleika fyrir íslenska póstdreifingu og geta tekið eðlilegt gjald fyrir þá pakka. Það er auðvitað ekki eðlilegt að pakkasendingar, t.d. frá netverslun í Kína, séu niðurgreiddar af íslenskum skattgreiðendum í samkeppni við verslun innan lands. Það er mjög mikilvægt að taka á því.

Varðandi fyrri spurninguna um stöðu landsbyggðarinnar gagnvart þjónustunni þá er einmitt í frumvarpinu skilgreind svokölluð alþjónusta, lágmarksþjónusta. Hún er sambærileg við þá þjónustu sem nú er veitt, nema hvað að við það að afnema einkaréttinn er opnað fyrir að aðilar á einhverju svæði sem hugsanlega sjá sér hag í því að bæta þjónustuna geti tekið að sér alþjónustu á því svæði á markaðslegum forsendum. Þeir geta hugsanlega bætt þjónustuna. Það er mjög líklegt að það gerist þar sem þéttbýlið er mest að með þjónustu í höndum ólíkra aðila verði meiri samkeppni, að menn muni hugsanlega fjölga útburðardögum eða á einhvern hátt breyta þjónustunni og vonandi til batnaðar. Það er líka möguleiki á landsbyggðinni. En frumvarpið tryggir að það sé alltaf veitt lágmarksþjónusta og það er líka tryggt í frumvarpinu að það sé sama gjald fyrir þær sendingar sem heyra undir alþjónustuna, hvar sem það er. Ég tel það vera mjög mikilvægan þátt í frumvarpinu.