149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég nota mitt tækifæri núna til að ræða þá staðhæfingu að það sé dýrara að þétta byggð. Þetta er klisja sem heyrist allt of oft. Það fer dálítið eftir því hvernig maður kostnaðarreiknar. Hér á Íslandi kostnaðarreiknum við t.d. byggingar þannig að við reiknum lóðarverð, hönnunarkostnað og byggingu og svo hættum við, á meðan aðrar þjóðir eins og Japanir og fleiri þjóðir kostnaðarreikna þannig að inni er kaup á landi, það er hönnun, það er bygging, það er rekstur í 50 ár og niðurrif. Það er hinn eiginlegi kostnaður. Og nákvæmlega sama gildir þegar við byggjum annars vegar inni í borg og þéttum eða brjótum land sem kostar meiri samgöngur, stærri stofnanir, meiri lóðahirðu, meiri snjómokstur sem kostar meiri útblástur fyrir umhverfið, þá fullyrði ég að það er miklu dýrara að fara þá leið að brjóta stöðugt nýtt land og láta byggðina gisna.

Einkabíllinn er mesti bölvaldur þéttbýlis á 20. öldinni og það skal enginn reyna að fullyrða annað. Við höfum hins vegar enga aðra möguleika en að vinda ofan af því. Við erum komin með þessa uppfinningu og við getum nýtt hana á skynsamlegan hátt og við eigum að nýta hana á skynsamlegan hátt. Sumir þurfa að eiga bíl og við eigum að virða það. En við eigum líka að horfa til þeirra sem vilja ekki eiga bíl, vegna þess að það er bæði betra fyrir umhverfið, það er betra fyrir þá sem vilja ferðast með almenningssamgöngum. Það er líka betra fyrir þá sem vilja keyra á einkabílnum af því að þá verða vegirnir væntanlega greiðari.

Ég fullyrði því þvert á móti að það er ótrúleg sóun sem felst í úthverfavæðingunni. Það er ekki að ástæðulausu að hver einasta borg í Evrópu og vestan hafs er að keyra nákvæmlega þá leið sem hv. þingmaður hefur stutt með ráðum og dáð um að þétta byggð og byggja borgarlínu.