149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna mjög þeirri umræðu sem fer fram í dag og tek undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur sem var í pontu rétt í þessu. Það er mjög mikilvægt að við ræðum húsnæðismál mikið í þinginu. Við í Samfylkingunni höfum verið leiðandi í þeirri umræðu á þessu þingi sem og á fyrri þingum, bæði er varðar sérstaka umræðu um húsnæðismál, sem var leidd af Samfylkingunni, en ekki síður núna með þessari tillögu til þingsályktunar. Það er nefnilega ekki nóg að ræða bara um ástandið á húsnæðismarkaðnum og hversu ferlegt ástandið hefur verið fyrir hinn almenna borgara og ekki síst þá sem minnst hafa á milli handanna. Það þarf að fara í ákveðnar aðgerðir. Þar saknar maður þess svolítið að heyra frá ríkisstjórninni og stjórnarþingmönnum og fá einhverjar alvörutillögur fram, fá að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þeim málum, af því að við erum öll sammála um að fara þarf í miklar aðgerðir.

Í þingsályktunartillögunni eru settar fram átta tillögur, ýmist hugmyndir um frumvörp eða aðrar tillögur sem hægt er að fara í. Mig langar svolítið að veita athygli frumvarpi sem enn á eftir að mæla fyrir á þinginu, en það er í 8. lið. Það er frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðisbætur, sem í daglegu tali kallast húsaleigubætur. Þannig er að til þess að fólk eigi rétt á húsnæðisbótum þarf það að leigja húsnæði þar sem það hefur bæði eldhús og baðherbergi til einkaafnota.

Með frumvarpinu sem hefur verið lagt fram á þinginu en á eftir að mæla fyrir, sem vísað er til í 8. lið þingsályktunartillögunnar, er lögð fram sú breyting að námsmenn og fatlað fólk geti fengið húsnæðisbætur þótt það deili eldhúsi og baðherbergi með öðru fólki og búin þannig í einhvers konar kommúnu eða sambýli með öðru fólki. Það getur verið ansi hagstætt að leigja stærra húsnæði fleiri saman en geta engu að síður fengið húsnæðisbætur. Það getur ekki bara verið hagstætt heldur getur það líka verið gott fyrir sálartetrið að búa með öðru fólki, búa með vinum sínum, búa með öðrum fjölskyldumeðlimum, að leigja saman íbúð eða stærra húsnæði. Þess vegna er það hluti af þingsályktunartillögunni. Við fylgjum því eftir, af því að við viljum gera gagn á þinginu, með frumvarpi sem þingheimur getur þá stutt. Ég vona að málið komist á dagskrá þingsins á næstu dögum svo að við getum fjallað um það og komið því til nefndar.

Aðeins varðandi orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að sárafáir vilji búa í leiguhúsnæði. Ég tek undir það sem hv. þm. Logi Einarsson segir um að afstaða almennings til leiguhúsnæðis sé ekki síst svona neikvæð vegna hins ótrausta leigumarkaðar sem er á Íslandi. Það að fólk geti ekki tryggt sér leigu á húsnæði til lengri tíma hefur mjög neikvæð áhrif á afstöðu fólks til leiguhúsnæðis yfirleitt.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í dag. Ég held að ef við gætum byggt upp öruggari leigumarkað, bæði fyrir ungt fólk og eldra fólk sem langar kannski ekki að hafa allan sparnað sinn í einhverri steinsteypu, það væri afstaða almennings á Íslandi til þess að búa í leiguhúsnæði frekar en eigin húsnæði mun jákvæðari.

Ég held að mikið verk sé fyrir höndum við að byggja upp aftur þann leigumarkað sem var tekinn algjörlega úr sambandi fyrir þó nokkrum árum.

Rétt undir lokin verð ég að benda á að þótt vextir og verðbólga hafi verið í ágætisstandi að undanförnu eru blikur á lofti. Við búum við þær aðstæður að vera með gjaldmiðil sem er fullkomlega óútreiknanlegur. Vextir og verðbólga hafa mjög mikil áhrif á lífsgæði okkar á Íslandi og hafa mjög mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn. Um leið og þetta fer allt af stað erum við enn einu sinni komin á mjög erfiðan stað fyrir fjölda fólks, bæði þá sem eru ekki með háar tekjur og þá sem hafa nýlega fest kaup á fasteignum og eiga kannski mjög lítinn hluta í fasteigninni. Það getur verið mjög flókið. Ég held að stjórnvöld verði að bregðast hratt við og reyna að koma með okkur í þingflokki Samfylkingar í ákveðnar aðgerðir, eins og tilgreindar eru í þingsályktunartillögunni, til þess að koma almenningi á Íslandi til hjálpar.