149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn og líka fyrir þessar góðu ábendingar. Hvað varðar falsað myndefni langaði mig aðeins að ræða það sérstaklega — kannski bara að útskýra hvað átt er við með því í frumvarpinu. Til dæmis er verið að ná yfir þá háttsemi að setja t.d. höfuðið á einstaklingi á klámfengnar myndir af öðrum og dreifa því í því skyni að niðurlægja viðkomandi eða smána. Þetta var ein af þeim ábendingum sem við fengum við flutning fyrra frumvarpsins sem við erum að bregðast við með því að bæta inn í þetta frumvarp.

Ég get alveg tekið undir það að fullt tilefni er til að skoða hvort færa megi þetta inn í fleiri atriði í okkar löggjöf, að notast við falsað myndefni. Þetta er hins vegar ákveðin verknaðaraðferð á þessum glæp, þ.e. á þessum verðandi glæp vonandi, sem við erum að leggja til að falli undir þetta og sé heldur ekki litið jafn alvarlegum augum.

Hvað varðar 15–18 ára þá vantar mig aðeins betri útskýringu á því hvað hv. þingmaður á við með athugasemd sinni. Við áttum okkur alveg á því hvað varðar þessa 210. gr., um dreifingu á kynferðislegu myndefni með börnum, að refsiramminn sé ekki jafn hár. Þess vegna bættum við líka við sem refsiaukningu „sé einstaklingar undir 18 ára aldri“, til að sýna fram á alvarleika þess að brjóta gegn börnum, að við séum á engan hátt að gera lítið úr dreifingu á barnaklámi eins og það er venjulega kallað.