149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar stórt er spurt. Ég held við þurfum að gera mjög mikið til þess að snúa af þeim kúrsi sem samfélagið hefur verið á varðandi kynferðisbrot, sérstaklega, en svo mætti líka nefna brot gegn börnum og fötluðu fólki. Þær eru margir hópar í samfélaginu þar sem kerfið hefur brugðist.

Fyrsta skrefið er að bæta kerfið og síðan er kannski eins og þingmaðurinn nefnir ástæða til að líta um öxl og bæta þeim sem hafa orðið fyrir tjóni skaðann. Mér finnst ekkert endilega þurfa að eltast við útfærsluna á því. Ég held að aðalatriðið sé að taka til í öllum þessum kerfum sem þingmaðurinn nefnir. Það er réttarkerfið, heilbrigðiskerfið, það er alls staðar þar sem kerfið hefur snertifleti við þolendur. Það þurfum við að gera til þess að við tryggjum að þeim sé trúað, að við brotunum sé brugðist og að þolendur upplifi það að kerfið hafi brugðist við á réttan hátt, hvort sem það er með sakfellingu gerenda eða á einhvern annan hátt.