149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir hans ræðu en vil aðeins ræða þær vangaveltur sem komið hafa fram hér að undanförnu hvort við eigum að bregðast við hér á þinginu með lagasetningu. Já og nei, myndi ég segja, því að stundum er gott að láta rykið setjast áður en brugðist er við með lagasetningu. Lagasetning er auðvitað mjög afgerandi.

Í þessu tilviki hefur verið augljóst um langt skeið að þarna var skortur í lögunum, þarna vantaði inn í lögin úrræði til að bregðast við þessum nýju ofbeldisbrotum, stafrænu kynferðisofbeldi. Ég tek því undir það sem hefur komið hér fram að auðvitað hefði átt að vera löngu búið að þessu. En hvar erum við þá? Það er búið að leggja þetta fram. Þetta er, held ég, í þriðja sinn sem þetta er lagt fram nú á stuttum tíma.

Þá er það okkar þingmanna að greiða leið þessa máls í gegnum þingið og vinna í því. Þeir sem sitja í þessari ágætu nefnd, allsherjar- og menntamálanefnd, þurfa þá að halda formanni nefndarinnar við efnið svo að þetta mál lendi ekki neðst í bunkanum vegna þess að það eru þingmenn sem leggja það fram. Það er pólitíkin hér á þinginu, sem er auðvitað mjög vond, að þannig er unnið gegn mjög góðum málum. Það er það sem hefur verið að gerast hér.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn hvort hann sé til í að vera með okkur í þingflokki Samfylkingarinnar í því að leggja til breytingar á fjárlögum sem auka fjárframlag til lögreglunnar svo að lögreglan geti sinnt störfum sínum. Ég mun koma aðeins betur inn á þetta í síðara andsvari.