149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

þingsköp Alþingis.

23. mál
[19:29]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem varðar ávarp á þingfundum. Það er svo:

Á eftir 95. gr. laganna kemur ný grein, 95. gr. a, svohljóðandi:

„Forseti skal að jafnaði einu sinni í mánuði, sbr. 2. mgr. 10. gr., heimila allt að tíu almennum borgurum að ávarpa þingfund um málefni líðandi stundar. Hvert ávarp má ekki standa lengur en í tvær mínútur. Borgararnir skulu valdir af handahófi úr kjörskrá.

Forsætisnefnd setur nánari reglur um framkvæmdina.“

Þá eru það nokkur atriði hvað þetta varðar sem væri gott að taka inn í nefndina sem fer yfir málið. Varðandi tíðnina, þ.e. oftar en einu sinni í mánuði, það væri í fínu lagi mín vegna. Sjaldnar? Nei. Ég set það sem ákveðið lágmark. Tíminn, tvær mínútur, má alveg vera lengri mín vegna en ég miða við ræður um störf þingsins, að það sé ákveðið viðmið þar. Og svo fjöldinn, allt að tíu. Það mega alveg vera fleiri mín vegna en helst ekki færri. Hvað það varðar að borgarar skuli valdir af handahófi úr kjörskrá barst mér ábending um að ýmsir yrðu útilokaðir vegna þessa, m.a. fólk sem er með kjörgengi í sveitarstjórnum en ekki til Alþingis. Það mætti mögulega miða við kjörskrá í sveitarstjórnarkosningum til að fleiri hafi aðgang. Það myndi t.d. taka til frumvarps sem við ræddum á síðasta þingi þar sem kosningaaldur var lækkaður niður í 16. Ég væri vel til í að það væri ekki takmarkað við 18 ár eða þá sem eru með kosningarrétt til Alþingis. Það má alveg endilega vera yngra fólk og alveg endilega fleiri sem búa hérna en aðeins þeir sem eru takmarkaðir við atkvæðisrétt í alþingiskosningum.

Í greinargerð segir:

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 51/1991, með það að markmiði að heimila kjósendum að ávarpa þingfund að jafnaði einu sinni í mánuði þegar þing starfar. Lagt er til að allt að tíu kjósendur, sem valdir eru af handahófi úr kjörskrá, geti ávarpað þingfund um málefni líðandi stundar og má hvert ávarp ekki standa lengur en í tvær mínútur. Um val á kjósendum, ákvörðun um ræðutíma, framkvæmd ákvæðisins og fleira skal forsætisnefnd kveða nánar á í reglum.

Á Norðurlöndunum er ekki að finna fordæmi fyrir því að kjósendur geti tekið til máls í þingsal. Í norsku og dönsku þingskapalögunum geta einungis þingmenn og ráðherrar tekið til máls í þingsal. Tekið skal fram að í Danmörku geta kjósendur lagt fram tillögu að borgarafrumvarpi. Fái tillagan 50.000 undirskriftir má leggja hana fyrir þingið sem þingsályktunartillögu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og fær hún þinglega meðferð.

Samkvæmt 50. gr. finnsku þingskapalaganna skrá þingmenn sig á mælendaskrá. Forseti þingsins getur hins vegar ákveðið að gefa ráðherra, lagakanslara ríkisstjórnarinnar, umboðsmanni þingsins, orðið áður en aðrir fá leyfi til að taka til máls.

Í 15. gr. sænsku þingskapalaganna er kveðið á um að allir þingmenn og ráðherrar megi tjá sig um öll mál sem eru til umræðu á þingfundi, með þeim undantekningum sem kveðið er á um í lögunum. Forseti getur bannað mönnum að taka til máls, hafi þeir ekki farið að fyrirmælum forseta um að halda sig við umræðuefnið.

Í lögum um þingsköp Alþingis er ekki að finna nein ákvæði um þátttöku kjósenda á þingfundi. Fram hafa komið tillögur um hvernig auka má áhrif hins almenna borgara á störf þingsins. Sem dæmi má nefna að í tillögum stjórnlagaráðs og frumvarpi meiri hluta stjórnarskipunar- og eftirlitsnefndar til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 415. mál, 141. löggjafarþingi, sem byggðist á þeim var að finna ákvæði um þingmál að frumkvæði kjósenda, sbr. 66. gr. frumvarpsins, eða svokallað þjóðarfrumkvæði.

Með frumvarpinu er ekki alveg verið að leggja til þann möguleika að kjósendur geti lagt fram þingmál heldur einvörðungu að þeir geti ávarpað þingfund. Fordæmi eru fyrir því að aðrir en þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands taki til máls á þingfundi ef sérstök ákvörðun um slíkt er tekin af forsætisnefnd, enda ekki verið að flytja þingmál eða taka þátt í störfum þingsins samkvæmt stjórnarskrá, lögum um þingsköp Alþingis eða þingvenjum. Dæmi um slíkt er ávarp forseta danska þjóðþingsins á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018.

Það er kannski ófyrirséð hvaða áhrif þetta frumvarp mun hafa á störf þingsins og samfélagsumræðuna og ýmislegt annað en ég tel að það sé gott af ýmsum ástæðum sem ég skal reyna að fara betur yfir.

Verði frumvarp þetta að lögum þarf að huga að nánari útfærslu, svo sem hvert hlutverk þingmanna verði í slíkum dagskrárlið, ég álít að þingmenn verði bara áhorfendur eða áheyrendur, hvernig umsjón verði með vali á kjósendum og framkvæmd þess og að framkvæmdin verði í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Flutningsmenn telja nægilegt að forsætisnefnd kveði nánar á um framangreint í reglum. Það er mat flutningsmanna að breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu styrki lýðræðislega virkni þingsins.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er Alþingi fulltrúasamkoma þjóðarinnar sem felur í sér að þar eiga þjóðkjörnir fulltrúar einir sæti, samanber 31. gr. stjórnarskrárinnar. Kveðið er á um eina undantekningu frá þessari meginreglu í 51. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að ráðherrar eigi samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á því að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó einungis ef þeir eru jafnframt alþingismenn. Í 38. gr. stjórnarskrárinnar segir að rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafi alþingismenn og ráðherrar. Þá er kveðið á um í 55. gr. stjórnarskrárinnar að eigi megi Alþingi taka við neinu málefni nema einhver þingmanna eða ráðherra flytji það.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis um að kjósendum — í víðum skilningi eins og ég minntist á í upphafi — verði heimilt að ávarpa þingfund um málefni líðandi stundar en ekki að þeir hafi rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana eða taka þátt í störfum þingsins að öðru leyti. Er það eindreginn vilji flutningsmanna að málið fái að ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og að metið verði á vettvangi nefndarinnar hvort hún telji nauðsynlegt að leggja fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga samhliða samþykkt frumvarpsins. Að mati flutningsmanna felur frumvarpið ekki í sér þörf á slíkri breytingu á stjórnarskrá og stendur því ekki í vegi fyrir því að breyta þingsköpum með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu, samanber fordæmið fyrir hinu sama.

Flutningsmenn telja að með samþykkt frumvarpsins verði Alþingi í forystu um eflingu lýðræðis og þátttöku almennings í stjórnmálum, eflingu sem felst í því að opna vettvang og ræðustól þingsins fyrir alla í gegnum slembival, að í þessum ræðustól sjáist fleiri andlit, heyrist fleiri raddir og skoðanir sem ekki eru úr stefnu stjórnmálaflokka.

Verði þetta frumvarp samþykkt hlakka ég til að Gunna mæti í þennan ræðustól og lesi mér pistilinn, að Jói útskýrir kerfafræði eða bara lesi ljóð eða kynni nýja uppskrift að brauði.

Alþingi má nefnilega alveg verða hversdagslegra. Virðing er ekki sjálfkrafa fólgin í því að vera öðruvísi. Virðing er ekki fólgin í því að klæðast einhverjum búningi eða fylgja hefðum sem við vitum ekki lengur af hverju eru til. Einu sinni var hefð að vera með bindi, ekki lengur. Einu sinni var hefð að vera í skóm, ekki lengur.

Virðing fæst ekki með girðingum á 17. júní eða við þingsetningu. Virðing fæst ekki með því að þykjast vera merkilegri eða betri. Virðing fæst með því að vera málefnaleg, aðgengileg og auðmjúk gagnvart þeim sem við störfum fyrir. Við erum nefnilega ekkert merkilegri en hver annar.

Ef þú fengir eitt tækifæri, einu sinni á ævinni, hvað myndir þú segja í ræðustóli Alþingis? Hvaða orð myndir þú skrá í sögubækurnar?