149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er talað um fátt meira núna en stórátak í húsnæðismálum og að það sé það eina sem geti liðkað fyrir komandi kjarasamningum. Um þetta eru bæði verkalýðsfélög og atvinnurekendur sammála, enda sagði Drífa Snædal, nýr forseti ASÍ, eftir samráðsfund launþega, atvinnurekenda, sveitarfélaga og ríkisstjórnar í gær, með leyfi forseta:

„En það sem var alveg greinilegt á þessum fundi og stór lykill að því sem koma skal eru húsnæðismálin.“

Hæstv. forsætisráðherra tók í sama streng og fréttir herma að ríkisstjórnin hyggist setjast yfir þau mál. Það eru út af fyrir sig góðar fréttir. Það hefur verið losarabragur á þeim málum síðustu árin og stórkostlegur vandi blasir við. Sitjandi stjórn hefur sýnt algjört metnaðarleysi í málaflokknum sem birtist bæði í fjármálaáætlun og fjárlögum sitjandi stjórnar.

Fyrir kosningar talaði hæstv. velferðarráðherra um svissnesku leiðina. Síðan var honum boðið til Finnlands og þá fór hann að tala um finnsku leiðina. Ég vona svo sannarlega að hann sé ekki á leiðinni í Disneyland. Hann verður að koma hingað og ræða málin. Raunin er sú að Samfylkingin er sá flokkur sem hefur haft frumkvæði að næstum allri vinnu þegar kemur að húsnæðismálum á þessu þingi. Síðast í gær mælti Samfylkingin fyrir aðgerðaáætlun í húsnæðismálum í átta liðum sem snýr einmitt að lausnum sem almenningur og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir. Enginn ráðherra sá reyndar ástæðu til að sitja undir þeirri umræðu.

Hér er um risastórt velferðarmál að ræða, eins og hæstv. ráðherra hefur kallað það sjálfur. Í anda nýrra vinnubragða og meiri samvinnu á þingi, sem hæstv. forsætisráðherra hefur talað mikið um, hefði mér þótt eðlilegt að a.m.k. velferðarráðherra hefði setið undir umræðunni. Hann hefði þá kannski áttað sig á því að hann getur lært ýmislegt um málið, m.a. af stjórnarandstöðunni og hann getur líka unnið með henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)