149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og kannski flestum er kunnugt í þessum sal hef ég verið talsvert lengi hugsi yfir þeim þingmönnum sem hefur verið umhugað um að siða okkur hin til, umhugað um virðingu þingsins og viljað gera allt til að bæta hana.

Þessir sömu þingmenn koma nánast daglega, eða mjög reglulega a.m.k., fram opinberlega, í fjölmiðlum, í þessum ræðustól hér og saka aðra þingmenn um þjófnað, með berum orðum, í tengslum við akstursgreiðslur, þeir saka ráðherra um skattsvik, hylmingar o.s.frv.

Það merkilega er að þessi sami hópur þingmanna, sem er aðallega í einum þingflokki en þó ekki alveg bundinn við hann einan, hefur þurft að ráða aðstoðarmenn til sín frá upphafi til að reyna að hafa hemil á eigin fólki, kenna því hvernig á ekki að áreita og hvernig á ekki að einelta. Við sitjum hér í kennslustund hjá þessu fólki nánast daglega.

Ég vil segja við þetta ágæta fólk: Þessi orðræða, þessar ásakanir, munu hvorki auka virðingu þingsins né þeirra sjálfra. Ég vil skora á þetta ágæta fólk að fara að ræða við okkur hin í þingsal um stjórnmál, um stefnu og um hagsmuni þessarar þjóðar. Hætta hinu og reyna að sýna ábyrgð í störfum. Þá gætuð þið sparað ykkur hugsanlega kostnað við aðstoð sérfræðinga úti í bæ.