149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er auðvitað mjög mikilvæg spurning, hvernig fjármögnun þessara skóla eigi að vera háttað og hvernig aðkoma okkar hér, ríkisvaldsins, eigi að vera að því.

Hv. þingmaður reyndar afgreiddi svona a-hluta míns svars, sem er auðvitað forsendan fyrir almennum lögum. Við höfum þessa lagalegu umgjörð og getum sett slíkum skólum skilyrði og skapað þær forsendur í raun og veru fyrir því að við styrkjum þá yfir höfuð.

Hv. þingmaður talaði jafnframt um að þetta væru eins konar sprotar, það er bara fimm ára saga á bak við LungA-skólann og styttri á Flateyri. Þetta er eins og gjarnan gerist í okkar samfélagi, frumkvöðlakrafturinn og áhuginn er mikill staðbundið, er hreinlega á undan ríkisvaldinu og löggjafanum þegar kemur að þessum þáttum. Þess vegna lagði ég áherslu á það í minni ræðu að við myndum hraða þessu. Það er búið að taka þrjú ár að klára hina almennu lagaumgjörð.

Ég sé fyrir mér að þetta verði undir sviði mennta- og menningarmálaráðherra eins og menntamál eru, og að við komum að fjármögnun þessara skóla í samvinnu auðvitað við þá aðila sem að þeim standa, sveitarfélögin. Ég ætla ekki út í þá skiptingu. Nú höfum við skipt upp skólakerfinu okkar þannig að framhaldsskólarnir eru á okkar færi og grunnskólarnir á hendi sveitarfélaganna. Ég sé fyrir mér módel þar sem við komum að þessu saman með sveitarfélögunum, alla vega fyrst um sinn.