149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með tillögu um að ráðherra skipi starfshóp sem ætlað er að skipuleggja stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands sem hafa muni aðsetur á Laugarvatni. Þessu framtaki fagna ég ákaflega. Kveðið er á um að í starfshópnum sitji fulltrúi frá sveitarfélaginu, þ.e. Bláskógabyggð, og einnig frá Ungmennafélagi Íslands sem mun tryggja aðkomu heimamanna að verkefninu og einnig rekstraraðila skólans.

Forsenda til þess að verkefnið fái eðlilegan framgang er einnig, eins og kemur fram í greinargerð, að vinnu við frumvarp til laga um lýðskóla ljúki sem allra fyrst svo þessu nýja skólaformi hér á landi verði mörkuð viðeigandi umgjörð í skólakerfi okkar, væntanlega að norrænni fyrirmynd. Það skyldi maður ætla. Þá ber einnig að fagna þessari tillögu að því leytinu til að þarna mun finnast æskileg og betri nýting mannvirkja á staðnum, á Laugarvatni, og líka er þetta verkefni til þess ætlað að efla Laugarvatn enn frekar og að nýju sem skólasetur eins og staðurinn hefur verið um langt skeið. Auðvitað er þetta líka eitt skref í því að byggja upp fjölbreytta starfsemi í dreifðum byggðum landsins. Þetta verkefni hefur að mínu mati margar góðar hliðar.

Aðeins að brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólunum. Brotthvarfsvandinn hefur lengi verið mikill í framhaldsskólakerfinu hér og brýnt að taka á honum og finna á honum lausnir. Eitt af því er auðvitað að bjóða unga fólkinu okkar upp á fleiri leiðir og rekstur lýðháskóla er klárlega eitt skref í þá átt. Þetta leiðir einnig hugann að því hvernig umgjörðin verður almennt í slíkum skóla, í íslenskum lýðháskóla, hvernig lagasetning verður. Ég nefni t.d. hver markhópur svona skóla væri helst með tilliti til þess að raunveruleiki íslenskra ungmenna er um margt ólíkur því sem er á hinum Norðurlöndunum. Þau hafa verið ívið lengur að taka ákvörðun um framtíð sína en jafnaldrar þeirra á öðrum Norðurlöndum. Ég horfi til þess að þarna er verið að taka upp glænýja og nýstárlega kennsluhætti hérlendis með þessari stofnun og því ber að fagna.

Eins og kemur fram í greinargerð og hefur komið fram í máli hv. þingmanna fyrr í þessari umræðu hafa svona tilraunir verið í gangi á Seyðisfirði í fimm ár og nú nýverið á Flateyri. Þetta byggir allt undir öfluga starfsemi úti á landi og ég fagna því sérstaklega. Lýðháskóli hefur marga góða kosti. Þar gefst nemendum færi á að hugsa mál sitt í rólegheitunum, ef svo mætti segja, í meiri ró en í hefðbundnum skólum. Þarna skapast líka meiri nánd við nemendahópana, milli kennara og nemenda og býður upp á ákveðnar samræður þar. Ég fagna því sérstaklega. Það er ein lausn á því að koma í veg fyrir stórt vandamál sem við horfum upp á hérlendis, brottfallsvandann og þann vanda sem við erum einmitt að fara að ræða á morgun, vanda ungra manna. Þeir virðast ekki vita almennilega í hvora löppina þeir eiga að stíga, margir hverjir, hvert eigi að stefna, hvert þeir eigi að fara og finna sér hlutverk. Ég fagna þessari tillögu ákaflega.