149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

31. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil taka undir það með honum að við notum fánann of lítið. (KÓP: Ég sagði …) Það lá í orðunum alla vega að það væri nauðsynlegt að auka notkun hans, ég vona að hv. þingmaður sé á þeirri línu eða verði á þeirri línu síðar.

Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort lögin séu of ströng og það valdi því kannski að fáninn sé notaður fremur lítið miðað við aðrar þjóðir. Það gæti verið rétt að ákveðnu leyti hjá hv. þingmanni. Þó er líka annað sem held ég að spili þar inn í, það eru ákveðnar mýtur, ef maður má orða það þannig, varðandi notkun fánans sem eru ekki réttar. Ég held t.d. að það sé svolítið um það að fólk haldi að ef fáninn snerti jörðu þá verði að brenna hann. Þetta er ein af þessum mýtum sem eru í gangi og er rangt. En það á hins vegar ekki að flagga fána sem er skítugur eða rifinn eða o.s.frv., eins og kemur fram í lögunum. Þetta gæti jú verið hluti af því að fáninn er ekki notaður í meira mæli, að það sé ákveðinn misskilningur varðandi hvað má og hvað má ekki og sjálfsagt að fara yfir það.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að slaka neitt á þessum lögum sem slíkum en frumvarpið gengur út á það og við flutningsmenn erum á því að nota fánann meira og bera meiri virðingu fyrir honum með því flagga honum daglega á þessum byggingum sem ég nefndi hér.

Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þingmanni að fáninn (Forseti hringir.)er notaður eins og í Bretlandi þegar þjóðhöfðinginn er viðstaddur, en þetta frumvarp gengur framar í þeim efnum.