149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

opinberar framkvæmdir og fjárfestingar.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að mönnum beri að undirbúa stærri framkvæmdir og allar framkvæmdir hæfilega þannig að dregið sé eins og hægt er úr óvissu og áhættu sem fylgir framkvæmdunum. Það sem ég bendi á er að ávallt er innbyggð einhver óvissa og áhætta og ytri aðstæður geta breyst.

Við getum tekið mörg dæmi. Tökum Hörpu sem dæmi. Harpa fór af stað sem einkaframkvæmd. Þar voru menn örugglega með góð plön, en það fór allt úrskeiðis. Það þurfti ekki aðkomu hins opinbera á því stigi. Síðan þegar hið opinbera kom að var verkið aftur eitthvað umfangsmeiri en menn sáu fyrir.

Ég held þess vegna að við séum sammála í öllum meginatriðum, ég og hv. þingmaður, og við erum svo sannarlega með risaframkvæmdir á prjónunum, á næstu árum þar sem skiptir öllu að það verði fullnægjandi aðhald og undirbúningur. Má ég nefna hér tvö risamál; Landspítalann annars vegar og Keflavíkurflugvöll hins vegar, þar sem framkvæmdaféð samanlagt fer langt yfir 100 milljarða.