149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrra andsvari fagna því að hækka eigi upphæðirnar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Ég vil taka undir orð hæstv. ráðherra þegar hann talar um mikilvægi þessara styrkja. Ég tel eins og hann að þetta muni hafa jákvæð áhrif. Ég kann einmitt fullt af dæmum og sögum frá fyrirtækjum sem hafa hreinlega sagt að þessir styrkir eða afslættir hafi skipt sköpum fyrir framþróun fyrirtækisins.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið formleg úttekt á hversu miklu máli þessi þáttur skiptir í því efni að sprotar nái að blómstra og festa góðar rætur. Og einnig hvort skilgreining á nýsköpunarfyrirtæki vefjist eitthvað fyrir þeim sem eru að vinna í þessum málum.