149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[13:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi þar sem lagðar eru til nokkrar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem varða annars vegar upplýsinga- og tilkynningarskyldu endurskoðenda og hins vegar takmarkanir á öðrum störfum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum. Ákvæði frumvarpsins eru hluti af hinni svokölluðu CRD IV-tilskipun, um stofnun og starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, og CRR-reglugerðinni um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja. Um er að ræða evrópskt regluverk sem m.a. innleiðir Basel III-staðalinn í Evrópurétt og við gerð frumvarpsins var horft til þess hvernig sömu ákvæði tilskipunarinnar hafa verið innleidd á Norðurlöndunum.  

Áður en ég reifa nánar efni frumvarpsins langar mig að rifja upp og minna á að á undanförnum árum hefur verið unnið að því í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að taka þetta regluverk upp í íslenskan rétt. Um er að ræða verulega umfangsmikið regluverk sem enn hefur ekki að fullu verið tekið upp í EES-samninginn en íslensk stjórnvöld hafa engu að síður ákveðið að innleiða á Íslandi vegna þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi.

Innleiðingin á Íslandi hefur átt sér stað í nokkrum áföngum sem falið hafa í sér viðamiklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og leitt til þess að sú löggjöf er orðin verulega frábrugðin því sem var. Sem dæmi má nefna eru kröfur um magn og gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja nú gerbreyttar frá því sem var fyrir hrun fjármálakerfisins, auk þess sem fjölmörg atriði varðandi rekstur þeirra hafa tekið breytingum í þá veru að stuðla að traustari rekstri fjármálafyrirtækja með hag almennings að leiðarljósi.

Ef ég sný mér aftur að því frumvarpi sem hér er til umræðu eru helstu breytingar sem það mælir fyrir um eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 92. gr. laganna sem fjallar um upplýsingaskyldu endurskoðanda. Nánar tiltekið fjallar ákvæðið um þau atriði sem endurskoðandi skal upplýsa Fjármálaeftirlitið um varðandi rekstur fjármálafyrirtækis og þá sérstaklega ágalla í rekstri þeirra. Þannig ber endurskoðanda að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um atriði eða ákvarðanir sem fela í sér brot á lögum. Atriði sem kunna að hafa áhrif á áframhaldandi rekstur félagsins ber að tilkynna sömuleiðis og atriði sem leitt geta til þess að endurskoðandi muni synja eða gera fyrirvara við ársreikning félagsins.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að endurskoðandi tilkynni stjórn fjármálafyrirtækis og Fjármálaeftirlitinu um ágalla í rekstri en með breytingunni er miðað að því að skýra ábyrgð endurskoðenda að þessu leyti. Ábyrgð endurskoðenda er samkvæmt ákvæðinu gagnvart Fjármálaeftirlitinu en endurskoðandi skal einnig tilkynna stjórn fjármálafyrirtækis um ágalla í rekstri nema í þeim tilvikum þegar rík ástæða er til að gera það ekki.

Um nánari útskýringu á þessum ákvæðum verður að vísa til greinargerðar. Að sjálfsögðu ber að túlka ákvæðið um skylduna til tilkynningar, t.d. um atriði sem kunna að hafa áhrif á áframhaldandi rekstur í þeim anda sem fram kemur í greinargerð.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að nýtt ákvæði bætist við lögin sem inniheldur takmarkanir á því hversu mörgum öðrum störfum stjórnarmenn og framkvæmdastjóri í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum og kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum á alþjóðavísu geta sinnt í stjórnareiningum annarra félaga samhliða. Ákvæðin innleiða efni sem koma fram í 3.–6. mgr. 91. gr. CRD IV-tilskipunar í íslenskan rétt.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum verði óheimilt að taka að sér störf í stjórnareiningum annarra félaga fari fjöldi slíkra starfa yfir ákveðin mörk. Heildarfjöldi starfa í stjórnareiningum annarra félaga getur þannig að hámarki verið fjórar stjórnarsetur í félögum eða eitt starf framkvæmdastjóra samhliða tveimur stjórnarsetum.

Fjöldi undantekninga er frá þessum ákvæðum en þannig teljast öll störf í stjórnareiningum félaga sem tilheyra sömu samstæðu sem eitt starf í skilningi ákvæðanna. Það sama gildir um öll störf í stjórnareiningum félaga sem fjármálafyrirtæki fer með virkan eignarhlut í og öll störf í stjórnareiningum félaga sem eru hluti af stofnanaverndarkerfi sem fjármálafyrirtæki er aðili að.

Takmarkanirnar taka ekki til starfa í stjórnareiningum félaga sem ekki eru rekin í atvinnuskyni að meginstefnu til, t.d. góðgerðarfélaga, íþróttafélaga, húsfélaga o.s.frv. Ásamt þessu hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að veita undanþágu til setu í stjórn eins félags til viðbótar við sérstakar aðstæður, þannig að nokkrar eru undanþágurnar, eins og frumvarpið ber með sér.

Í frumvarpinu er sérstaklega leitast við að nýta svigrúm tilskipunarinnar við innleiðingu þessa ákvæðis þannig að sem minnstar takmarkanir verði settar hvað fjölda starfa varðar. Við það mat vóg hvað þyngst hve smá íslensk fjármálafyrirtæki eru að jafnaði í evrópskum samanburði. Þannig er lagt til í frumvarpinu að takmarkanirnar nái einungis til þeirra einstaklinga sem starfa fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki. Loks er lagt til að þær taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020 og þannig gefst þeim einstaklingum sem þurfa að sæta þessum takmörkunum svigrúm til að breyta í tíma.

Í þriðja lagi er í þessu frumvarpi lögð til regla sem skyldar stjórnarmenn til að verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu fjármálafyrirtækis. Breytingin felst í því að lagt er til að sú skylda stjórnarmanna til að verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu fjármálafyrirtækis taki einnig til framkvæmdastjóra. Það er í samræmi við 2. mgr. 91. gr., samanber 13. gr. CRD IV-tilskipunar. Það má svo sem velta því fyrir sér hvort skrifa þurfi slíka skyldu í lög, að ekki dugi að það leiði af ráðningarsamningi og almennum starfsskyldum þeirra sem taka slík störf að sér. Hvað sem líður slíkum vangaveltum rata reglurnar inn í evrópska regluverkið um fjármálafyrirtæki sem teygir anga sína hingað til Íslands og við leggjum upp úr því að samræma regluverk fjármálafyrirtækja þessum mikilvægu nýju tilskipunum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frumvarpi verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.