149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þetta var mjög gott andsvar og mjög margt athyglisvert kom fram. Það má segja að þetta frumvarp sé nokkurs konar ávöxtur eða afurð af því starfi sem unnið var í nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins. Líkt og hér hefur komið fram kom þessi sveigjanleiki út úr því starfi, en sveigjanleikinn er í sjálfu sér lítils virði ef þú ert tilneyddur lögum samkvæmt að hætta vinnu sjötugur. Þá er í sjálfu sér tómt mál að segja: Ellilífeyristökualdurinn er allt upp í áttrætt. Ég tala nú ekki um ef þú mátt svo ekki vinna þér inn nema 100.000 kr., ef þú ert orðinn sjötugur, áður en ríkið byrjar að skerða þig, í staðinn fyrir að hvetja þig til að vinna meira og tína þá af þér skatta, sem menn greiða að sjálfsögðu.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað er þetta kannski fyrsta skref í því að við byggjum meiri sveigjanleika inn í kerfið. Ég endurtek þetta með 73 árin, þau voru kannski blanda af varkárni og hugsanlega íhaldssemi, en það var alltaf í hugum manna klárt að þau aldursmörk gætu hækkað eftir því sem reynslan kæmi fram af því hvernig þetta kæmi út. Þá segi ég aftur: 75 ár. Jú, jú, mikil ósköp, það má alveg hugsa sér það. Það má líka hugsa sér það þannig að þetta eigi við á meðan menn standa í báða fætur. En þá værum við hugsanlega komin út í það sem ég sagði að við ættum ekki að gera, þ.e. að teppa það að ungt fólk komist að o.s.frv. Þannig að okkur þótti þetta, eins og maður segir, gott fyrsta skref, bara svo að ég orði það hreint út. Við ætluðum þá að láta reynsluna skera úr um það hvort nógu langt væri gengið eða hvort við héldum áfram. Við vildum kannski ekki spenna bogann það hátt að fara að taka það til baka, þær ástæður lágu til.