149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka þessu svari sem góðu og gildu í sambandi við þessi tengsl, þ.e. réttindi ríkisstarfsmanna og þessa fyrirkomulags, að erfitt sé að reka ríkisstarfsmenn og einnig að þessi hluti gildi, þ.e. að þeir þurfi að hætta að vinna sjötugir. En jafnvel þó að við sammælumst um að endurskoða allt kerfið frá grunni, og segjum að við séum sammála og leggjum jafnvel fram þingsályktunartillögu um það, þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður myndi ekki samt sem áður getað hugsað sér að styðja málið á þeirri forsendu einni að fólk lifir lengur og getur unnið lengur og síðast en ekki síst — ég tók ekki eftir því hvort einhver annar nefndi það — gera tækniframfarir fólki kleift núna að vinna ákveðin störf lengur, t.d. heima hjá sér. Fólk sem er enn með fulla andlega starfsgetu en kannski skerta líkamlega starfsgetu, það er til tækni til að koma til móts við það. Þróunin er sú að það er auðveldara fyrir fólk að vinna lengur. Duga þau rök ein og sér, að því gefnu að við séum ekki að fara í neina heildarendurskoðun, hreinlega ekki til að styðja þetta mál þótt það sé ekki heildarlausn á öllum þeim vandamálum sem hv. þingmaður nefndi?