149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem ég mæli fyrir var áður flutt á 145. löggjafarþingi af nokkrum fyrrverandi og núverandi þingmönnum úr fjórum þingflokkum. Það er nú flutt aftur í góðu samráði, alla vega við einn af þeim sem að því frumvarpi stóð á sínum tíma.

Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, kennitöluflakk. Flutningsmenn eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þetta er breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.

Það segir í greinargerð um kennitöluflakk, með leyfi hæstv. forseta:

„Kennitöluflakk felur í sér misnotkun eigenda og stjórnenda á félagaforminu sem veitir þeim skjól vegna þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem eigendur bera á skuldbindingum félagsins. Þannig er skuldum vegna atvinnurekstrar safnað í eitt félag og síðan þegar félagið er komið í rekstrarleg vandræði er snarlega stofnað nýtt félag í sama atvinnurekstri með nýrri kennitölu og reksturinn færður þangað. Í gamla félaginu eru þá skildar eftir skuldbindingar sem að jafnaði fást ekki greiddar við gjaldþrotaskipti félagsins. Oft er um að ræða skuldir við hið opinbera, vanskil á sköttum og gjöldum, en einnig skuldbindingar við aðra einkaaðila, birgja og fleiri, sem og vangoldin laun.“

Frú forseti. Í könnun sem var gerð árið 2005 töldu 73% stjórnenda fyrirtækja að fyrirtækin sem þau störfuðu fyrir hefðu orðið fyrir tjóni af kennitöluflakki. Það er því til mikils unnið með tilgangi þessa frumvarps, að leggja til leiðir til að draga úr kennitöluflakki og reyna þannig að sporna við undanskotum í skattkerfinu samfélaginu öllu til hagsbóta.

Það er búið að rannsaka áhrif kennitöluflakks víða um heim, m.a. í Ástralíu. Fram kemur í rannsókn í Ástralíu að kennitöluflakk kostar 0,13–0,28% af landsframleiðslu. Landsframleiðsla okkar er, eða var árin 2016/2017, í kringum 2.600 milljarðar. Þá þýðir að sú upphæð sem ég er að ræða núna, 0,13–0,28%, er á bilinu 3,5–7 milljarðar á ári.

Það má leiða líkur að því samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja að af völdum kennitöluflakks í gjaldþrotum á Íslandi á árunum 2011–2013 hafi tap kröfuhafa numið um 22 milljörðum króna. Rannsóknir benda til þess að kennitöluflakk sé í tilviki gjaldþrota á bilinu 3,5–í 15%.

Sá sem hér stendur er gamall innheimtumaður ríkissjóðs og gamall fjárgæslumaður ríkissjóðs. Það er mál sem liggur mér mjög á hjarta að þau gjöld sem lögð hafa verið á séu greidd. Hvorki sá sem hér stendur né aðrir flutningsmenn Miðflokksins leggja til aukna skattheimtu. Það var heldur ekki gert við fjárlagaumræðuna í fyrra. Engin af þeim tillögum sem Miðflokkurinn lagði til þar miðaði að aukinni skattheimtu.

Í undirbúningi er — og nú tala ég varlega aftur — að Miðflokkurinn leggi fram áhersluatriði sem varða bætta skattinnheimtu, ekki aukna skattheimtu heldur bætta skattinnheimtu. Það má segja að þetta mál sé einn liður í því að koma slíku á.

Við þekkjum örugglega öll sem hér störfum dæmi um óprúttna aðila. Í sumum tilfellum þegar kennitöluflakk er stundað er rökstuddur grunur um að menn séu að stunda kennitöluflakk í saknæmum tilgangi, að menn hafa skilið eftir hvert fyrirtækið á fætur öðru, hverja kennitöluna á fætur annarri eignalausa og búnir að hlaða upp skuldum, sérstaklega við ríkissjóð. Við þekkjum dæmi um að menn lifa kannski ekki af með rekstur nema tvö, þrjú virðisaukaskattstímabil. Þegar er byrjað að sýna mönnum alvöru í innheimtu er skellt í lás og reksturinn byrjar daginn eftir á nýrri kennitölu.

Þetta þekkjum við sérstaklega úr nokkrum starfsgreinum. Það er eftir miklu að slægjast og það er til mikils unnið að mál eins og þetta fái lyktir á Alþingi og að við getum alla vega sagt að við höfum lagt okkur öll fram um að reyna að koma í veg fyrir slíka háttsemi.

Ekki einu sinni opinberir aðilar eru lausir við að verða fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks. Þrátt fyrir að áskilið sé í lögum um opinber innkaup að þeir sem selja þjónustu skuli vera í skilum við ríkissjóð o.s.frv. og skuli ekki skulda opinber gjöld og annað slíkt höfum við nýleg dæmi um opinberan aðila sem er í viðskiptum við fyrirtæki sem er greinilega í kennitöluflakki og það er Reykjavíkurborg, sem er enn að gera samning við fyrirtæki sem hefur sinnt ferðaþjónustu fatlaðra og er núna væntanlega á þriðju kennitölunni frá því að sá samningur komst á á milli borgarinnar og þessa fyrirtækis.

Það eru engir óhultir meðan ekki er tekið á afbrotamönnum eða mönnum sem hafa uppi slíka háttsemi með ákveðnum hætti.

Ég endurtek og ítreka að þetta mál er ekki liður í því að auka skattbyrði á fyrirtæki og einstaklinga. Málið er lagt fram, ásamt fleirum sem á eftir munu fylgja, til þess að bæta almenna skattinnheimtu og bæta almennt siðferði í viðskiptum. Ég held að alveg óhætt sé að tala um siðferði.

Það segir í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Er þar lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot.“

Þessi útfarastjórahópur er vel þekktur og er orðinn allstór og allumsvifamikill.

Hér segir enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla. Skv. 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga skal tilkynningu um stofnun hlutafélags til hlutafélagaskrár fylgja staðfesting á því að stofnendur uppfylli skilyrði 3. gr. laganna og að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylli skilyrði 66. gr. laganna. Skv. 150. gr. laganna skal synja félagi skráningar ef tilkynning um stofnun þess uppfyllir ekki skilyrði laganna.

Í 3. og 4. gr. frumvarpsins eru síðan lagðar til samsvarandi breytingar á lögum um einkahlutafélög og lagðar eru til á lögum um hlutafélög í 1. og 2. gr. Í 3. mgr. 122. gr. laga um einkahlutafélög er samsvarandi ákvæði og í 3. mgr. 148. gr. hlutafélagalaga um að tilkynningu um stofnun félags skuli fylgja staðfesting á hæfi stofnenda, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.“

Svo mörg voru þau orð.

Með frumvarpinu er leitast við að taka á mjög raunverulegu vandamáli. Auðvitað er það svo að flestir þeir sem stunda viðskipti á Íslandi eru heiðarleikinn uppmálaður. En því miður eru líka á ferðinni einstaklingar og fyrirtæki sem fara jafnvel fram með ólögmætum hætti og reyna á þanþol laganna sem nú eru í gildi til hins ýtrasta til að geta sloppið undan því að greiða gjöld til þjóðfélagsins, til að sleppa undan því að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þriðja aðila, gagnvart einkaaðila þess vegna eða einstaklingum o.s.frv. Það er háttsemi sem við eigum ekki og megum ekki taka þátt í að viðhalda.

Þess vegna er þetta frumvarp komið fram. Við flutningsmenn teljum allir einboðið að við eigum að ganga fram til að innheimta í ríkissjóð eins og lög gera ráð fyrir. Við eigum að fylgja fast þeim lögum sem um það gilda. Við eigum ekki að sýna óþarfa linkind í innheimtu opinberra gjalda heldur eigum þvert á móti að kappkosta þegar búið er að leggja opinber gjöld að innheimta þau eins og kostur er.

Það var sagt hér á einum tíma að um 80 milljarðar króna væri á floti í hagkerfinu undir radar skattyfirvalda, ef við getum orðað það þannig. Eins og menn heyrðu áðan var ég ekki með slíkar tölur á takteinum heldur rakti hvað rannsóknir annars staðar hafa leitt í ljós hvað kennitöluflakkið varðar.

Þetta eru vissulega stórar upphæðir. Okkur munar um 7 milljarða. Ætli það fari ekki langt upp í það sem okkur vantar upp á í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar? Það mætti segja mér það.

Það er eftir miklu að slægjast. Þess vegna eigum við ekki að þola að óreiðumenn safni skuldum og geti gert það trekk í trekk og ár eftir ár og tímabil eftir tímabil án þess að við sé brugðist.

Á sama hátt er náttúrlega ljóst að menn sem fara fram á þennan hátt og komast upp með það, sem skilja eftir skuldir í gömlu félögum á gömlum kennitölum og stofna nýjar, skekkja samkeppnisstöðu sína gagnvart mönnum, fyrirtækjum og lögaðilum sem standa sig.

Við höfum nýlegt dæmi. Við höfum dæmi um svart hagkerfi á Íslandi, skattaskjól á Íslandi, þar sem er Airbnb. Komið hefur fram að til skamms tíma voru einungis um 13% slíkra gistinga skráðar. Þá vorum við, ef ég man rétt, að tala um að á landinu öllu væru um 3.500 einingar leigðar út. Við settum lög á Alþingi árið 2016 þar sem tekið var á málefnum heimagistingar. Hvað hefur gerst síðan? Sumir hafa hætt slíkri starfsemi. Eitthvað af þeim eignum sem voru til útleigu til skamms tíma eru komnar til leigu til langtíma, sem hefur örugglega hjálpað leigumarkaðnum. Sumar af eignunum eru komnar inn á markaðinn til sölu. Það vill þannig til að hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra hafði kjark og þor til þess að heimila að sýslumaðurinn í Reykjavík myndi ráða átta starfsmenn til að fylgja því máli eftir. Hvað er ekki búið að gerast? Jú, það er búið að skrá fullt af þeim eignum sem áður voru óskráðar og undir radar skattyfirvalda.

Þó að ég sé ekki að mæla með því að menn fari um héruð með miklum hávaða til að elta uppi þá sem ekki eru réttum megin í skattalegu tilliti vil ég endurtaka að við eigum að beita þeim ráðum sem lög heimila til að reyna að koma í veg fyrir skattundanskot sem best er hægt.

Ég segi aftur: Við Íslendingar höfum ekki efni á því að missa milljarðatug á ári út úr skattkerfinu, sem sannarlega er búið að leggja á, sem menn eiga sannarlega að standa skil á. Við höfum ekki efni á því að sleppa aðilum við að greiða slíkar upphæðir. Við eigum ekki heldur að láta neyða okkur í nýja skattheimtu vegna þess að gamla skattheimtan hefur ekki gengið upp. Við eigum að fylgja því eftir að menn greiði það sem þeim ber.

Þetta mál er ágætisskref í þá átt að færa lög yfir þá sem stundað hafa kennitöluflakk, sem er allt of algengur sjúkdómur á Íslandi. Ég vil hvetja þingmenn til að taka undir þetta mál. Ég geri ráð fyrir því að málið fari líka til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og hef áður lýst því yfir að ég hef tröllatrú á formanni þeirrar nefndar, hann er bæði ötull og kappsamur Ég trúi því að hann taki málið til gaumgæfilegrar athugunar og færi það fram eins og hægt er, eins vel og eins hratt og eins vandað og hægt er.

Hæstv. forseti. Ég legg til að við tökum þetta mál mjög alvarlega og færum það í gegnum þingið hratt og vel.