149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda ræðu hér á eftir til að rökstyðja það af hverju þetta frumvarp er vont og mun heldur ekki ná tilgangi sínum. En ég ætla að bíða með það þangað til á eftir. Auðvitað skynjaði ég það á ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar að þar talar gamall innheimtumaður ríkissjóðs og hefur voðalegar áhyggjur af því að einhverjir milljarðar tapist úr ríkissjóði af álögðum sköttum.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að ég er gamall skiptaráðandi í Reykjavík. Ég hef skipt hundruðum þrotabúa og get alveg sagt hv. þingmanni að 99% af þessum milljörðum, af álögðum sköttum, eru ekki raunverulegt tekjutap heldur bara álagning af því að menn skila ekki framtölum o.s.frv.; sennilega 99% af því.

Fyrirtæki sem standa höllum fæti skulda ekki tekjuskatt. Skattur sem þau gætu hugsanlega skuldað er þá sá sem þeim er falið samkvæmt lögum að innheimta af öðrum. En eins og við vitum er það refsivert brot nú þegar. Þá er bara spurningin sú, ef þetta snýst mikið um það: Er það ekki bara þannig í lögum að menn sem hafa framið refsivert brot geti ekki verið í forsvari fyrir fyrirtæki? Þurfum við eitthvað á þessu frumvarpi að halda út af því?

Það er vissulega tap ríkissjóðs þegar menn skila ekki virðisaukaskatti sem þeir hafa innheimt. En ef þetta snýst bara um það að refsa mönnum með því að þeir megi ekki vera í stjórn fyrirtækja eða í rekstri af því að þeir hafi ekki borgað álögð gjöld hjá skattinum, þá þykir mér mikið fyrir haft. Því það gerir, held ég, ekkert gagn í stöðunni.