149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það segir í 1. og 2. gr. frumvarpsins að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar megi ekki hafa verið á þremur árum í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem orðið hafa gjaldþrota. Þetta vill segja í stuttu máli að mönnum er gert að hafa staðið við það að hafa átt tvö fyrirtæki á þremur árum og að þau hafi lifað lengur en 18 mánuði. Að fyrirtækin hafi lifað lengur en 18 mánuði. Það liggur bara í augum uppi ef menn lesa þessara greinar.

Þá verð ég að spyrja hv. þingmann: Ef eitthvert slíkt ákvæði yrði sett um að menn mættu ekki hafa stýrt eða komið nálægt stjórnun fyrirtækja, fleiri en einu eða fleiri en tveimur, hér er talað um tvö eða fleiri, hversu mörg telur þingmaðurinn að þessi fyrirtækið mættu vera sem viðkomandi einstaklingar hefðu keyrt í þrot eða misst í þrot, hvernig sem við orðum það, á gefnum tíma? Vill þingmaðurinn upplýsa okkur um það hvort hann telur að þau ættu að vera fimm á þremur árum eða sex eða fleiri? Hvar ætlum við að draga línuna?

Ég kannast alveg við þessa umræðu um opinber gjöld og vörsluskatta. Málið er bara að þrátt fyrir þessi ákvæði þá stöðvast þessir aðilar ekki. Þeir halda áfram rekstri. Þeir stofna til nýrra fyrirtækja. Þannig að þrátt fyrir góðan vilja ríkisskattstjóra sem ég efast ekki um að sé góður og þrátt fyrir ötula vinnu hans starfsmanna þá virkar það ekki, hv. þingmaður. Þess vegna spyr ég: (Forseti hringir.) Hvaða leið er betri en þetta og hversu mörg fyrirtæki (Forseti hringir.)á hversu skömmum tíma ættu menn að fá að missa í þrot áður en þeir verða fyrir einhverjum óþægindum af því?