149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú kemur í ljós pínulítill grundvallarmunur á viðhorfi mínu og hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar þegar kemur að atvinnurekstri. Ég held því fram að í grunninn séu allir atvinnurekendur sem og launþegar heiðarlegir. Ég ætla ekki að segja að það eigi að setja lög um það að ef viðkomandi hefur stjórnað fyrirtæki og orðið fimm sinnum gjaldþrota þá eigi að koma einhverjum böndum á hann. Ég segi bara: Verum ekki að refsa fólki sem hefur ekki brotið lög, hefur ekki verið ákært, hvað þá verið dæmt, en það er það sem felst í þessu frumvarpi.

Ég geri enga athugasemd við að verið sé að koma böndum á óheiðarlega aðila sem stunda viðskipti með sviksamlegum hætti. Við eigum að taka hart á því en við eigum þá að beita þeim leikreglum og hafa í heiðri þær leikreglur sem við viljum að séu viðhafðar hér í samskiptum, ekki bara á milli ríkis og atvinnurekstrar eða í samskiptum einstaklinga og fyrirtækja heldur bara almennt í þjóðfélaginu. Við getum aldrei gengið þannig fram, alveg sama hversu góður ásetningurinn er, eins og hér er lagt til. Þetta er eins og að reyna að réttlæta það með einhverjum hætti, hv. þingmaður, að það sé í lagi að setja svona tíu saklausa í fangelsi til að ná einum sekum. Ég sé engan mun á því og þessu frumvarpi.