149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:59]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað oft þannig að þegar menn rökræða þá er kannski ágætt að byrja á því að reyna að ná samstöðu um hvað orð þýða. Í mínum huga er refsing fólgin í því ef maður hamlar fólki að gera eitthvað sem ég lít á að sé stjórnarskrárbundin réttindi, m.a. atvinnufrelsi. Það er auðvitað ákveðin refsing fólgin í því. Hér er verið að setja þessa refsingu á fólk sem hefur ekki með neinum hætti brotið lög þrátt fyrir að það hafi siglt í strand með sitt fyrirtæki. Ég ætla líka að benda hv. þingmanni á, eins og hann veit manna best, að það er þannig, ekki síst í nýsköpunarfyrirtækjum, að menn eru kannski með eitt, tvö, þrjú fyrirtæki undir. Það geta verið móðurfélög og dótturfélög o.s.frv., þannig að ég skil ekki þessa 18 mánaða reglu. Þegar móðurfélagið fer í þrot þá er í rauninni allt farið í þrot.

Það eina sem ég bið menn um — ég skal vera með ykkur í því að sannfæra fólk um að reyna að vinna á þessu ömurlega og alvarlega meini sem er sviksemi í íslensku atvinnulífi sem kemur niður á okkur öllum og ekki síður heiðarlegum fyrirtækjum. Við skulum vinna heiðarlega að því, en ekki fara fram með þeim hætti að það sé verið að koma á refsingu. Refsa þeim sem í engu hafa brotið lög og ekki gert annað en að fylgja lögum og reglum. Eina brot þeirra er það að fyrirtækið gekk ekki upp.