149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[18:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög og í sviga fyrir aftan ber málið heitið kennitöluflakk. Það er það sem um ræðir hér og ég hygg að þeir sem flytja þetta frumvarp séu að reyna að vinna gegn því og kemur reyndar skýrt fram í greinargerðinni og ágætri framsögu hér áðan.

Ég get heils hugar tekið undir þau markmið sem sett eru fram í frumvarpinu. Ég hygg að þeir sem tekið hafa til máls hér í dag um frumvarpið séu sammála um að það er auðvitað meinsemd þegar fólk setur af ásetningi fyrirtæki í þrot og tekur undan eignir og hefur rekstur undir annarri kennitölu. Það hefur lengi verið rætt um þetta sem ákveðna meinsemd í íslensku atvinnulífi. Þó að ég hafi ekki verið lengi á þingi hef ég oft velt þessu fyrir mér og þetta er eitt af þeim fyrstu málum sem ég fór að skoða þegar ég kom hingað inn á þing og hugsaði: Hvað erum við eiginlega að gera í þessu máli? Ég kynnti mér þá vinnu sem þáverandi hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, hafði sett af stað og las mér til um umræðuna þegar kom að aðgerðum eins og lýst er hér í þessu frumvarpi. Þá er hræðslan mjög mikil að slíkar aðgerðir myndu bitna sérstaklega á nýsköpunarfyrirtækjum.

Ég tók til máls hér fyrr í dag þar sem við vorum að ræða nýsköpun og aðgerðir til að efla nýsköpun hér á landi og sagði og stend með því að eitt af því mikilvægasta fyrir íslenskt atvinnulíf er að hér sé auðvelt að stofna fyrirtæki og við búum við þannig umgjörð að hér sé auðvelt að stunda nýsköpun. Flestir sem hafa skoðað þetta mál benda á að þetta sé áhættuþáttur þegar kemur að því, þetta gæti dregið úr nýsköpun, haft ákveðinn fælingarmátt. Ég held að það sé töluvert til í því.

Ég ætla samt ekki að vera með sömu dramatík og þeir þingmenn, samflokksmenn mínir, sem hafa rætt þetta mál á undan mér en ég held að í grunninn hafi þeir á réttu að standa. Ég verð samt að segja það, hafandi rekið fyrirtæki, ég og eiginmaður minn og hann þá sérstaklega með lítið iðnaðarfyrirtæki, þar sem hefur gengið á ýmsu, þá hefur maður oft velt fyrir sér hvernig stendur á þessu og ég skil þar af leiðandi svo vel reiði almennings þegar verið er að lesa fréttir um það að hin og þessi fyrirtæki hafa farið í þrot og skilið eftir sig slóð af skuldum. Ég hef oft horft á þennan rekstur hjá okkur og þegar illa hefur gengið hef ég hugsað: Hvernig kemst maður eiginlega út úr þessu? Mér hefur þótt það vera þannig að flestar skuldir sem byggjast upp í svona fyrirtækjum eru einmitt vörsluskattar. Þá er það saknæmt og ég hef þar af leiðandi aldrei skilið hvernig fólk kemst undan því.

Ég held að við þurfum að taka þetta mál til umræðu og við höfum reyndar tæpt aðeins á því í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sérstaklega í tengslum við umræðu sem kom upp fyrr í haust um undirboð á vinnumarkaði. Við höfum heimsótt ríkisskattstjóra og þar lýstu starfsmenn því að þeir þekktu þetta ferli sem frummælandi fór aðeins yfir áðan varðandi útgerðarstjórana og hvernig aðrir aðilar væru fengnir til að keyra fyrirtækin í þrot á lokametrunum. Oft væri það fólk sem hefði kannski lítið haft með reksturinn að gera í upphafi. Það séu jafnvel ákveðnir einstaklingar sem eru þekktir fyrir það að stofna ný og ný fyrirtæki og það endi alltaf með ósköpum. Við hljótum að geta fundið einhverjar leiðir til að koma í veg fyrir nákvæmlega þetta.

Það er alkunna í þessum verktakabransa að kvartað er yfir því að þetta skekki mjög samkeppnisstöðuna, sem það vissulega gerir. Þess vegna hef ég verið hlynnt svokallaðri keðjuábyrgð, stóð sjálf að því sem bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ að innleiða slíkt fyrir sveitarfélagið Mosfellsbæ með sama hætti og ég veit að höfuðborgin hefur gert og fleiri sveitarfélög. Þá er ýtt undir ábyrgð sveitarfélaganna þegar boðið er út verk á því að fylgja því eftir að allir aðilar á verkstað eða allir aðilar sem komi að verkinu fái greidd laun í samræmi við kjarasamninga og það sé enginn með opinberar skuldir á eftir sér og annað þess háttar. Ég er mjög hlynnt þessu og held að við þurfum að finna frekari útfærslur á slíku.

Ég ætla að segja að ég fagna því að þetta frumvarp sé fram komið, ekki vegna þess að ég geti lýst yfir eindregnum stuðningi við það sem slíkt heldur vegna þess að ég get lýst yfir stuðningi við markmiðin. Vonandi getur þetta orðið til þess að við getum farið í þá umræðu og metið þetta. Ég heyrði nú að hv. þm. Brynjar Níelsson taldi að það væri ákveðið ofmat í gangi á því tjóni sem svona fyrirtæki skilja eftir sig og kannski getur þetta frumvarp hjálpað okkur í þeirri vinnu að leggja mat á það hvert raunverulegt tap samfélagsins er af gjaldþroti og af kennitöluflakki og þá á sama tíma hvaða aðgerðir væru best til þess fallnar að reyna að stemma stigu við slíku.

Það er auðvitað ekkert ólöglegt við það að fyrirtæki verði gjaldþrota. Ég held að við hljótum flest að geta sammælst um mikilvægi hlutafélagsformsins og þeirrar staðreyndar að það kemur reglulega fyrir að fyrirtæki verði gjaldþrota. Það er bara eðlilegt að fyrirtæki á markaði tapi í einhverri baráttu og verði undir og til verði ný fyrirtæki. Það er bara hluti af markaðnum. En þegar fólk gerir sér að leik að taka fyrirtæki í þrot, það er kannski ekki rétta orðalagið, að gera sér að leik, en þegar fólk tekur allar eignir úr hlutafélögunum undan, fyrirtækið fer í þrot og á sama tíma getur viðkomandi aðili hafið rekstur að nýju með sömu eignum og voru í fyrra félagi, það er einfaldlega rangt. Það hlýtur að vera sviksemi og svindl á því kerfi sem við höfum komið okkur upp. Því miður eru þess dæmi að þetta eigi sér stað og við hljótum með einhverjum hætti að geta komið frekari böndum á slíkt því það skaðar samfélagið allt og ekki síst viðkomandi atvinnugreinar og samkeppnisstöðuna þar.

Ég hlakka til að fá þetta mál inn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og sjá þær umsagnir sem um málið berast og ætla bara að leyfa mér að vera bjartsýn á að það geti kveikt á umræðu og kannski mögulega einhverjum lausnum sem við getum svo í framhaldinu notast við til að bæta þetta ástand.