149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að taka þetta efni til umfjöllunar og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt og leggja sitt mikilvæga lóð á vogarskálarnar í umræðunni.

Íslenskur landbúnaður er gamalgróinn atvinnuvegur sem við tengjumst öll, hvert með sínum hætti, enda flest ættuð annaðhvort frá sjávarsíðunni eða úr sveit, nema hvort tveggja sé. Við lifum þá tíma að ekki er sjálfgefið að stór landsvæði séu í eigu Íslendinga sjálfra. Raunin er sú að nokkur fjöldi bújarða og verðmætar auðlindir í tengslum við þær eru í beinni og óbeinni eigu útlendinga eða erlendra lögaðila. Með EES-samkomulaginu eru ýmsar leiðir opnar í þessu sambandi og það er gagnkvæmt. Íslendingar geta þannig fest sér skika innan landa ESB og hefur nokkur fjöldi landans nýtt sér það.

Herra forseti. Við viljum veg landbúnaðar á Íslandi myndarlegan og að jarðnæði, sem er reyndar af skornum skammti, sé vel og skynsamlega nýtt til framtíðar. Við horfum til þess að grænn landbúnaður vaxi og dafni og að við tengjum hefðbundna framleiðslu mun meira markaðsaðstæðum hverju sinni. Mörg sóknarfæri eru til staðar fyrir íslenska bændur og við verðum að gæta þess að brenna ekki neinar brýr að baki okkur.

Í umfjöllun Alþingis við samningu jarðalaga árið 2004 var einmitt fjallað um að hér væri ekki sama þörf fyrir land til landbúnaðarnota og áður, en mikilvægt væri að vernda land sem nýtanlegt sé til landbúnaðar, að greinin sé í örri þróun og því sé skynsamlegt að gæta að því að nægjanlegt land sé til staðar fyrir landbúnaðarframleiðslu framtíðarinnar.

Herra forseti. Á það er drepið í nýlegri skýrslu starfshóps um eignarhald á bújörðum að mikilvægt sé að yfirvöld landbúnaðarmála geti kippt í spotta og haft áhrif á ferlið en að málin hvíli ekki einfaldlega bara á herðum skipulagsyfirvalda.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hans afstöðu hvað þetta (Forseti hringir.) varðar og hvort hæstv. ráðherra vilji leggja orð í belg.