149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við horfum upp á það í auknum mæli að auðmenn kaupa upp jarðir sem hafa verið í ábúð og ætla sér ekki að nýta áfram til landbúnaðarframleiðslu eða nýtingar. Eins og lagaumhverfið er í dag geta allir innan EES-svæðisins átt viðskipti með bújarðir og ekki fylgja þeim kaupum neinar kvaðir.

Reglugerð sem sett var árið 2013 fól í sér takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila á jörðum hér á landi. Hún var felld úr gildi af ótta við Eftirlitsstofnun EFTA. Danir hafa sett ströng skilyrði fyrir kaupum á bújörðum í sínu landi. Þar er þess m.a. krafist að kaupandi bújarða skuli hafa fasta búsetu á viðkomandi jörð. Þannig er komið í veg fyrir að jarðir færist á hendur fárra fjársterkra aðila. Ekki hefur ESA haft afskipti af þessum lögum í Danmörku.

Við Vinstri græn höfum endurtekið flutt tillögur um endurskoðun á lagaumhverfi varðandi uppkaup jarða og lands og tillögur um að stjórnvöld móti stefnu um flokkun, vernd og skráningu ræktanlegs lands til stuðnings við ákvarðanatöku um nýtingu þess og landnotkun. Ég tel mikilvægt að vinna með tillögur starfshóps um eignarhald á bújörðum og ég tel einnig mikilvægt að landeigandi hafi hér búsetu og eigi hér lögheimili, það sé brýnt að ræktunarland sé ekki tekið undir aðra óskylda starfsemi og að búið sé á sem flestum jörðum svo sveitir landsins myndi áfram sem besta byggðafestu með lifandi samfélagi.

Það eru um 18.000 manns í strjálbýli sem treysta með einum eða öðrum hætti á landbúnaðinn í dag. Landbúnaður er og verður órjúfanlegur hluti af byggðafestu í okkar landi.