149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:22]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda umræðuna. Undanfarið hefur átt sér stað nokkur umræða um eignarhald á bújörðum því að margir hafa af því áhyggjur að of margar jarðir hafa farið úr eigu Íslendinga. Á grunni þess að allt land er auðlind, þ.e. landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst, hljótum við að þurfa að grípa til aðgerða.

Mest ásókn hefur verið í hlunnindajarðir sem eiga veiði- og vatnsréttindi. Ásóknin hefur verið mikil meðal fólks sem ekki hefur fasta búsetu hér á landi og eru erlendir ríkisborgarar. Hér er því mikilvægt að staldra við og spyrja: Erum við að selja auðlindir úr landi? Eins og sú sem hér stendur hefur áður komið inn á í þingsal leggjum við Íslendingar ekki í vana okkar að selja auðlindir úr landi. Íslendingar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Orkuvinnsla skal einnig vera í íslenskri eigu sem og orkudreifing.

Í sjávarútvegi gilda strangar reglur um erlent eignarhald á íslenskum útgerðarfélögum og fiskvinnslu. Einnig gilda á Íslandi takmarkanir á erlendu eignarhaldi í flugrekstri. Ég spyr því hvers vegna það sama gildi ekki um auðlindina íslenskar jarðir. Hér hefur verið nefnt að lausnin gæti m.a. falist í því að skilyrða kaup á jörðum við samfellda búsetu á Íslandi í ákveðið mörg ár. Ég kalla áfram eftir eigendastefnu ríkisins vegna bújarða því það er hluti af þessu máli. Hvaða leiðir eru bestar til að nýta þessa auðlind? Er hægt að beita hagrænum hvötum í skattkerfinu til að hvetja til nytja bújarða? Er hægt að leggja lægri fasteignaskatt á jarðir sem nýttar eru en þær sem ekki eru nytjaðar?

Hæstv. forseti. Mikilvægt er að hafa grunnupplýsingar í lagi. Það þarf að laga. Þá fyrst er hægt að vita umfang verkefnisins og gera raunhæfar áætlanir um nýtingu. Þetta er byggðastefnumál, þetta er náttúruverndarmál, þetta er auðlindamál, þetta er samvinnumál. Þetta er mál afkomenda okkar.