149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að við ræðum tillögur þessa starfshóps um takmörkun á eignarhaldi bújarða út frá nokkrum vinklum. En ég vil bæta umræðuefnum inn í þessa umræðu sem ég vil ekki að gleymist ef við ætlum að reglusetja með stífum hætti eignarhald á bújörðum, sem ég ætla ekkert að útiloka að þurfi að fara yfir og er alls ekki á móti. Ég vil einungis minna á að um leið og við förum að ræða um takmarkanir á eignarhaldi á bújörðum erum við að skerða réttindi einhverra, við erum mögulega að skerða eigur fólks o.s.frv.

Það sem við verðum líka að muna eftir að ræða í þessu sambandi er ábyrgð þess að eiga bújörð. Ég hef lengi óskað eftir því að við tækjum þá umræðu oftar og betur og skýrar, vegna þess að þær kröfur sem löggjafinn gerir til ábyrgðarhlutverks þeirra sem eiga og halda bújarðir geta haft gríðarleg áhrif á það hvort menn safna bújörðum.

Við höfum ýmis úrræði og ákvæði í lögum um fjöleignarhús. Við höfum í mörgum lögum ýmsar skyldur þeirra sem starfa undir tilteknum lögum. En við höfum því miður ekki náð að safna því saman í jarðalögum hver ábyrgðin sé við að eiga land og hvernig eigi að hirða um það.

Það er miklu stærra verkefni en svo að ég hafi áhyggjur af eignarhaldi erlendra aðila á íslenskum bújörðum. Það er umræða sem einskorðast mjög mikið við laxveiði, réttindi og veiðihlunnindi sem taka mætti á með öðrum hætti, eins og t.d. með takmörkunum á atkvæðafjölda í veiðifélögum, með því að setja skorður þar, sem ég held að væri eðlilegt að ræða. En jafnframt þurfum við að ræða um forsvar fyrir bújarðir.

Vandamálið í sveitum er líka að verða það að allt of margir eigendur eru að jörðum. Eigendahópurinn er oft ósamstiga, hann er ósamstæður og ekki fæst niðurstaða um nýtingu bújarða, sem skapar oft og tíðum gríðarleg vandamál og þau fara vaxandi. Við þurfum líka að huga að þeim.