149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna. Ég tel ekki rétt að hafa þetta loðnara en svona. Ég held að það sé einmitt mjög gott að við setjum ákveðin mörk um að við skulum að lágmarki hafa einn sálfræðing með viðveru í hverju fangelsi.

Ég held að fangelsið á Kvíabryggju, sem liggur utan í Grundarfirði rétt hjá Stykkishólmi, sé ekkert frábrugðið fangelsinu á Litla-Hrauni og Sogni hvað varðar að vera úti á landi. Ef vilji er til held ég að við gætum mjög vel mannað pláss sálfræðings á Kvíabryggju. Svo erum við með Akureyri. Svo erum við með Hólmsheiði sem er rétt við borgarmörkin. Ég tel að við eigum ekki að láta mögulega erfiðleika við að manna sálfræðipláss koma í veg fyrir framgang svona þjóðþrifaverks.

Vegna allra þeirra starfa sem þeir sálfræðingar sem eru að störfum núna sinna ítreka ég að þeir geta sinnt þeim störfum áfram þó að þeir séu með skrifborðið sitt á Kvíabryggju, Hólmsheiði, Akureyri, Litla-Hrauni eða hvar sem er.