149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

fasteignalán til neytenda.

135. mál
[19:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp um eftirstöðvar í kjölfar nauðungarsölu, eða lyklafrumvarpið svokallaða, þar sem einstaklingar sem lentu í hremmingum hrunsins hefðu getað, ef þetta frumvarp hefði orðið að lögum, skilað lyklunum og sloppið þar með frá þeirri niðurlægingu sem fylgdi í kjölfarið, eins og kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, en 10.000 manns lentu í þessu.

Ég vil þakka flutningsmanni, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, fyrir þetta frumvarp. Flokkur fólksins stendur einhuga að því ásamt mér og hv. þingmönnum Ingu Sæland og Karli Gauta Hjaltasyni. Einnig eru á frumvarpinu hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Halldóra Mogensen og Helgi Hrafn Gunnarsson.

Þetta frumvarp hefur, eins og hefur komið fram, verið lagt fram fimm sinnum. Það er eiginlega óskiljanlegt og stórfurðulegt að það skuli ekki hafa verið samþykkt í fyrstu atrennu. Við vitum að eftir hrunið spruttu upp alveg stórfurðuleg atvik. Ég hef séð margt ljótt í því sem þar fór fram en sérstaklega man ég eftir því sem gerðist með lán Sparisjóðs Reykjavíkur sem enduðu í Dróma, sem enduðu meira að segja í safni Seðlabankans. Meðferðin á fólki í þeirri innheimtu er óafsakanleg. Fólk var hrakið af heimilum sínum og ekki nóg með það heldur var það sett í skuldaklafa. Stór hópur fólks flúði til útlanda og hefur ekki einu sinni möguleika á að koma heim aftur vegna þess að þess bíður skuldahali fáránleikans þar sem fólk er eiginlega sett í skuldafangelsi fyrir það eitt að hafa keypt sér íbúð, fyrir það eitt að hafa átt í íbúðinni sinni, en á einni nóttu varð fólk stórskuldugt, bara vegna hruns, vegna kerfisbreytinga, sem segir sig sjálft var ekki viðkomandi fólki að kenna á nokkurn hátt.

En það var annað í þessu sem var enn þá ljótara og enn þá furðulegra. Sumt af þessu fólki var ungt fólk sem var að kaupa sína fyrstu íbúð og það fékk uppáskrifað hjá foreldrum og ættingjum. Hvað gerðist? Viðkomandi foreldrar og ættingjar voru líka eltir upp, hraktir úr húsnæði og sagt að gjöra svo vel að borga allt upp í topp. Við verðum að átta okkur á því að í þeim ljóta leik voru 10.000 heimili landsins undir. Ef við reiknum með, eins og kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, um 30.000 manns erum við í því tilfelli að tala um að lágmarki 10.000 börn sem hrakin voru af heimili sínu með foreldrum sínum og fjölskyldan átti eiginlega ekki möguleika á að bjarga sér, hrakin út á leigumarkað, föst í dag á leigumarkaði, þeir sem ekki flúðu land, með skuldahalann og innheimtustofnanir á eftir sér. Greiðsluaðlögun kom til en ströng skilyrði voru sett fyrir því að komast þar inn og þegar fólk komst þar inn tók við skuldafangelsi í þrjú ár. Þar var þanið þannig að fólk hafði ekki til hnífs og skeiðar ef það ætlaði að sleppa í gegnum það ferli.

Sem betur fer var það í einhverjum tilfellum þannig að fólk slapp við þetta en í flestum tilfellum var ósanngirnin í innheimtunni algjör. Öllum ráðum var beitt og eins og ég sagði spruttu upp furðulegustu innheimtufyrirtæki. Það sem var eiginlega það ljótasta í því er að viðkomandi bankar, sparisjóðir og aðrir fóru ekki að leikreglum. Þeir lánuðu fólki án þess að gera greiðslukönnun. Þeir fylltu ekki út lögbundið form sem átti að vera til staðar við lánveitingar, sem var auðvitað orðið kolólögleg lánastarfsemi þegar allt hrundi en það stoppaði þá ekkert í því að reyna að klekkja á viðkomandi. Þeim tókst að ná til baka hjá fullt af fólki sem vissi ekki af þeirri stöðu sinni að það gat neitað að greiða. Var einhver sem upplýsti það? Var einhver sem aðstoðaði það? Var ríkið að hjálpa til? Nei. Ríkið var inni í þessu gegnum Seðlabankann. Það var allt undir. Þetta gekk yfir venjulegt fólk sem var eingöngu að kaupa sér húsnæði, ekkert að „gambla“ á markaði, ekkert að reyna að ávaxta fé sitt á þeim markaði þar sem tekin er ákveðin áhætta. Nei, þetta fólk tók ekki neina áhættu, það var að kaupa sér húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína en samt var ekkert gefið eftir. Það var algjörlega séð til þess að þetta fólk ætti ekki séns á að bjarga sér.

Eins og áður segir var það ljóta í því að þarna voru börn á bak við. Ég trúi ekki öðru en að við lærum af reynslunni og sjáum til þess að svona frumvarp verði samþykkt, vegna þess að við vitum ekki hvort svona hlutir geti gerst aftur.

Ég segi bara guð hjálpi okkur ef við höfum ekki vit á því að ganga frá því þannig að ef slíkir hlutir gerast aftur þá hafi fólk möguleika. Við vitum að íbúðaverð í dag er komið upp úr öllu. Ungt fólk er að skuldbinda sig upp á 40, 50, 60, 70 milljónir. Ef hlutirnir fara á versta veg er öll eign fólks fljót að hverfa. Þess vegna verðum við að hafa frumvarp sem gefur fólki tækifæri á að skila lyklunum, ganga út, byrja upp á nýtt, að verða ekki hundelt erlendis og hér heima af hrægammainnheimtufyrirtækjum sem eru tilbúin til að leggja allt undir og skiptir þá engu máli hvort það eru börn eða einhverjir aðrir sem verða á vegi þeirra. Innheimturnar skulu ganga yfir sama hvað það kostar. Ég vona svo heitt og innilega að þetta frumvarp fái þá meðferð sem það á svo sannarlega skilið og verði að lögum.