149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ítrekaða athugasemd. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að svara henni oft. Þessir 4 milljarðar eru naglfastir, þessi hópur á þessa 4 milljarða og sá starfshópur sem er að vinna að verkefninu gerir það með þessa 4 milljarða. Það er þannig. Þetta er svona nokkurn veginn eins og að segja um einstakling sem eignast hefur mikinn pening og ætlar að eyða honum öllum í bíl, það er 29. desember og bíllinn kemur óvart ekki til landsins fyrr en eftir áramótin og þá eyðir hann öllum peningunum í bílinn.

Þá myndi hv. þingmaður væntanlega segja að þessi sami einstaklingur væri alveg svakalega sparsamur fyrir áramót en ofsalega eyðslusamur eftir áramót. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að halda því endalaust fram að þetta sé óábyrgt. Það er óábyrg fjármálastjórn að setja ráðstafanir inn á næsta tímabil sem ekki er víst hvort við getum ráðstafað.