149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú vantar mig smá glærusýningu hérna. Aftur vísa ég bara í töfluna í fjárlagafrumvarpinu, þar stendur þetta skýrum stöfum. Framhaldsskólastig: Talan er lægri. Hún er lægri, pínulítið lægri, munar 16 milljónum. (Gripið fram í.) Þetta er eitt af fáum málefnasviðum, fyrir utan húsnæðisstuðninginn, þar sem talan er beinlínis lægri. Svo var ágætt að fá skýringu hæstv. ráðherra varðandi jöfnun námskostnaðar.

Það kemur ekki úr lausu lofti að forsvarsmenn framhaldsskóla koma til nefndanna og segjast vera komnir að þolmörkum. Það eru ekki orð sem ég bý til. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er annt um málaflokka sína og þess vegna skil ég ekki að hún hafi ekki náð betri árangri en þetta, alla vega í tilviki framhaldsskólastigsins. Ég get ekki annað en endurtekið að þetta eru tölurnar sem ég fæ úr hennar eigin frumvarpi. Ég get ekki stuðst við neitt annað en það.