149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og jákvæð orð. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis samstarfið í hv. fjárlaganefnd.

Ég ætla að draga hér fram, varðandi aukið umfang og ríkisútgjöld, að við neyðumst til þess, horfandi á sjálfbærni ríkisfjármála, að fara í mun skarpari forgangsröðun til framtíðar. Við þurfum að taka það sem heitir endurmat útgjalda, þessa kerfisbundnu greiningu á útgjöldum, miklu fastari tökum. Það blasir við. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi það.

Þá vík ég að öðru. Hv. þingmaður talaði um kolefnisgjaldið. Það dreifist með mismunandi hætti á atvinnulíf og landsbyggð. Nú erum við að hvetja til orkuskipta í samgöngum og það er auðvitað jákvæð þróun á margan hátt og hluti af nauðsynlegum aðgerðum til að bregðast við loftslagsbreytingum og virða okkar hluta í Parísarsamkomulaginu. En hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þá óhjákvæmilegu breytingu sem þarf að verða á innheimtu eða skattheimtu til að fjármagna samgöngur? Hv. þingmaður talaði um heildstæða stefnu í þeim málum og að við ættum til að mynda bara að falla frá kolefnisgjaldinu. En af því að hv. þingmaður talar um heildstæða stefnu, hvernig sér hann fyrir sér þessa innheimtu alla? Og hvernig fjármögnum við samgöngur inn í framtíðina?