149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna. Hann fór ágætlega yfir áherslur sínar og mat á fjárlagafrumvarpinu og honum varð tíðrætt um að fé vantaði til ýmissa verka. Svona fljótt á litið sýndist mér, ég tek fram að ég hef ekki náð að reikna það allt saman, að þær upphæðir sem þingmaðurinn nefndi hlypu á tugum milljarða, þ.e. þau verkefni sem hann annaðhvort leggur til eða tekur undir að gæti þurft að gera.

Mig langar í fyrra andsvari — ég geri mér grein fyrir að þingmaðurinn leggur ekki fram breytingartillögur í samræmi við þetta — að inna hann eftir því hvort hann eða fólk á hans vegum hafi reiknað það saman hver heildarkostnaður þessara undirtekta, (Forseti hringir.) skulum við segja, kynni að verða ef af yrði.