149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, jú, það eru meira að segja fleiri undanþegnir en Píratar, það eru aðrir nýir flokkar á þingi en ég átti auðvitað ekki við þá. Ég átti við þá sem um véluðu á sínum tíma.

En hvað um það, það má vel vera að ríkisfjármálaáætlun geri ráð fyrir einhverjum tilteknum milljarðafjölda næstu árin. En nú er það svo að ríkisfjármálaáætlanir eru aðlagaðar ýmsu hverju sinni, bæði verkefnum og kannski breytingum á hagsveiflunni, breytingum í hagkerfinu. Ég lít svo á að þegar alvara lífsins blasir við höndli menn samkvæmt því. Ég á von á því að eftir því sem þau tímamörk nálgast og við þurfum að standa skil á þessum hlutum bregðist þing og ríkisstjórn við með réttum hætti sem og fyrirtæki, sveitarfélög og aðrir. Það þarf eflaust að finna aukið fé til þessara mála og við getum gert það með því að hækka óvinsæla skatta eins og kolefnisskatt. Við vitum að hann er óvinsæll. Við vitum á hverjum hann bitnar öðrum fremur o.s.frv.

Það eru aðrar leiðir líka. Hægt er að vera með annars konar innheimtu á t.d. rafbílum eða einhverju öðru, það er annars konar skattlagning. Ég treysti því einfaldlega að vegna alvarleika mála og vegna þess að það er nokkuð þverpólitísk samstaða um að bregðast við loftslagsmálum verði hægt að leysa þetta verkefni. En ég er ekki með neinar töfralausnir á einni mínútu.