149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og andsvarið og vil upplýsa þingmanninn um að það sem ég ræddi í ræðu minni áðan var meira að lögin um opinber fjármál leyfðu ekki svigrúm í þeim ramma sem settur er hverju sinni, að sett sé strik en ekki bil, ef þingmaðurinn skilur hvað ég á við. Í staðinn fyrir að hafa svokallað hart gólf í fjármálastefnunni eins og hún er lögð upp af hverri ríkisstjórn er gólfið frekar það sem ég myndi kalla mjúkt, þ.e. að ekki séu sett strik við einn heldur sé bil sem væri t.d. 0,8–1,2 eftir atvikum.

Þetta nefndi ég sérstaklega vegna þess að þegar hagspár breytast á milli framlagningar frumvarpa og þangað til lokaafgreiðsla frumvarpanna fer fram er svigrúmið sem er til breytinga miklu minna en ella. Í rauninni krefst hart gólf þess að ríkisstjórn á hverjum tíma gefi út fjárlagafrumvarp sem er með meiri afgangi heldur en línan í fjármálastefnunni gefur tilefni til að ætla, vegna þess að að öðrum kosti er ekkert svigrúm ef breyting kynni að verða. Það er þetta sem ég var að gagnrýna en ekki sú samþykkt sem við gerðum í vor.