149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil orð hv. þingmanns þannig að hann sé sammála því að hafa fjármálareglu í opinberum fjármálum en að það væri ekki ein ákveðin tala heldur væri sett bil.

Það er fróðlegt að heyra að hv. þingmaður Vinstri grænna sé hlynntur því að hafa fjármálareglu í opinberum fjármálum en reglan verði bara að vera þannig að það sé einhver sveigja, sem er í sjálfu sér skynsamlegra heldur en að hafa hart gólf. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er betra.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann. Ef við værum með bil en ekki hart gólf, hefði hv. þingmaður viljað að með breytingartillögum ríkisstjórnarinnar hefði verið gengið á afganginn til að setja í velferðarkerfið og styrkja það og kjör barnafólks, jafnvel öryrkja og heilbrigðiskerfið o.fl., eða hefði hann viljað skila meiri afgangi? Hvernig myndi hv. þingmaður vilja nýta sér þetta bil og þann sveigjanleika ef hann væri fyrir hendi eins og staðan er núna?