149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:15]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í fyrsta lagi væri gríðarlega mikilvægt, og ég rakti það mjög vel í inngangsræðu minni og hef gert það allan þann tíma sem við höfum verið að ræða þessi mál í haust, að ná í gegn kerfisbreytingu í almannatryggingunum, varðandi endurhæfinguna og hvernig við styðjum best við bakið á þeim sem detta út af vinnumarkaði og aðstoðum þá við að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Ástæðan er m.a. sú að ef við náum ekki að gera breytingu þar á er gert ráð fyrir gríðarlegri aukningu þeirra sem fara á örorku á næstu árum. Af því höfum við haft áhyggjur. Hér var m.a. umræða um unga drengi í síðustu viku og ástæðurnar fyrir að þeir detta út úr íslensku samfélagi.

Það hefur alla tíð verið sagt að við þessa kerfisbreytingu verði líka breytingar á almannatryggingakerfinu. Sú vinna hefur tekið lengri tíma, eins og komið hefur fram í umræðu um fjárlög, og kemur m.a. fram í þingmálaskrá þar sem gert var ráð fyrir að málið kæmi fram í október. Það er ekki vegna þess að verið sé að setja einhvern í skrúfstykki. Það er vegna þess að við erum búin að vera að hlusta á raddirnar í samráðshópnum. Við höfum hlustað á þau varnaðarorð sem verið hafa í þingsal um það sem við þurfum að varast við breytingar á almannatryggingakerfinu. Þegar menn hlusta og eiga samráð leiðir það oft til breytinga. En slíkt tekur oft aðeins lengri tíma.

Það er það sem ég hef lagt áherslu á við þessa endurskoðun, að við hlustum á raddir, m.a. Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og fleiri aðila við breytingar á þessu kerfi. Þess vegna mun þetta tengjast og það hefur algerlega verið skýrt í mínum huga.

Ég mun svara næstu spurningu í síðara andsvari því að ég næ því ekki núna.