149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:47]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að byrja á því að segja að ég er sammála hv. þingmanni, mig er farið að lengja eftir niðurstöðum um starfsgetumatið og þá vinnu sem er í gangi. En eins og ég segi hefur samráð verið í gangi og það tekur tíma.

Það er gríðarlega mikilvægt að breytingar séu gerðar á málaflokknum. Þessi ríkisstjórn, líkt og fyrri ríkisstjórn, vegna þess að þingmaðurinn leiðrétti mig ekki hvað það snerti, hefur lagt áherslu á að gerðar séu breytingar á almannatryggingakerfinu samhliða því að við ráðumst í þá áskorun sem það er að koma fólki til virkni sem lendir í dag á örorku en ætti ekki að gera það. Ég ítreka umræðuna sem var hér í síðustu viku um unga drengi.

Við þurfum að flýta þeirri vinnu, ýta á að hún klárist, því að þá getum við farið að undirbúa hvernig hún verður innleidd. Ég (Forseti hringir.) legg áherslu á að eiga gott samstarf við hv. þingmann um það og fagna því að hann sé í grunninn sammála stefnu ríkisstjórnarinnar hvað þetta snertir, líkt og eigin stefnu þegar hann var ráðherra. (Gripið fram í.)