149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get tekið undir allt það sem hv. þingmaður sagði hér. Hv. þingmaður sagði jafnframt að við værum á tímamótum í þessu ferli öllu og ég er sammála því. Þetta eru hlutir sem við eigum að beita okkur fyrir að betrumbæta, að laga upplýsingarnar sem við fáum í frumvarpi. Eitt af þeim markmiðum sem lagt var upp með í lögum um opinber fjármál var einmitt að treysta umgjörð ríkisfjármála og bæta það sem við köllum framkvæmd fjárlaga. Svo er það eftirfylgnin við það. Við erum að ákveða fjárheimildir og í hvað fara fjárveitingarnar? Af hverju þarf að auka við? Af hverju þarf að skerða? Og þannig mætti áfram spyrja. Þetta er, vil ég meina, framfaraskref í ríkisfjármálum, í umgjörð ríkisfjármála. Það er hluti af þeim stöðugleika og aga sem lagt var upp með að yrði í kringum ríkisfjármál.

Ég held að við sjáum það núna, þegar við erum í fyrsta skipti að fara niður í efnahagsspám frá því sem verið hefur undanfarin misseri, að allir þurfa að fara í gegnum öll málefnasvið af því að launa-, gengis- og verðlagsforsendur eru að hækka. En í frumvarpinu sjálfu eru sáralítil frávik frá ríkisfjármálaáætlun. Það er eitt af því jákvæða sem við sjáum. Við erum að halda okkur við upphafleg markmið í heildina tekið þannig að ýmislegt jákvætt er hægt að draga fram.

Virðulegur forseti. Ég vil jafnframt segja það hér að ég get tekið heils hugar undir margt af (Forseti hringir.) því sem er í nefndaráliti hv. þingmanns, úrbætur sem lagðar eru til á forminu.