149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum í grunninn sammála. Hæstv. félagsmálaráðherra Ásmundur Einar Daðason var fyrr í dag í umræðu um þetta mikilvæga verkefni sem við viljum ná árangri í. Ég vil segja hér og ítreka að engin ríkisstjórn hefur í seinni tíð sýnt jafn sterklega á þau spil að vilja gera það. Ég segi eins og hæstv. ráðherra, hann bindur vonir við að þetta takist og þessar tillögur komi sem fyrst fram. Hann sagði jafnframt að eiginleg innleiðing gæti úr þessu ekki hafist fyrr en 2020 en við getum sannarlega nýtt þessa fjármuni til að byrja að vinda ofan af þessu.

Mér líst ágætlega á það sem hv. þingmaður fór yfir. Það verður þá auðveldara að rífa plásturinn af alla leið. Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, í þessu skattaumhverfi okkar, að ef meira situr eftir í vasa þeirra sem þiggja laun hafa þeir meira til ráðstöfunar til að eyða. Það kemur þá fram í neyslusköttum og öðru. Þess vegna er þessi fjárhæð líklega eitthvað lægri.

En ég spyr hv. þingmann: Hvenær getum við átt von á því að fá tillögur frá þessum starfshópi? Það er oft tilhneiging með svona stóra starfshópa að þeir þurfa að taka tillit til margra sjónarmiða og ég hygg að ná verði sátt um það sem við köllum starfsgetumat. Hvenær getum við átt von á tillögum?