149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aðgengi fatlaðra að opinberum byggingum.

[14:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir fyrirspurnina og þótt hún heyri ekki beint undir mína málaflokka get ég auðvitað svarað henni almennt. Að sjálfsögðu gilda lög og ég veit ekki betur en að bæði ríki og sveitarfélög sem og aðrir aðilar reyni að uppfylla það sem þarf að uppfylla.

Við þekkjum að það gengur ekki alltaf nægilega vel. Sem betur fer eru talsmenn fatlaðs fólks og ýmsir þeir sem að koma, foreldrar, aðstandendur, duglegir við að benda á það og ég held að í flestöllum tilvikum bregðist sveitarfélög og ríki við eins hratt og hægt er eftir atvikum.

En við þekkjum líka að mikið er til af gömlum byggingum og jafnvel mannvirkjum þar sem ekki var hugsað fyrir þessu. Stundum er erfitt að koma því fyrir, en ég held að fullyrða megi að allir reyni að gera sitt besta.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega það dæmi sem hv. þingmaður nefndi hérna upphaflega, en það er sjálfsagt að skoða það og athuga hvort menn séu ekki að vinna samkvæmt þeim verkferlum sem flestir eru að reyna.