149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

mótun flugstefnu.

[14:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að víða um land hafa menn haft hugmyndir um meiri afnot af þeim flugvöllum sem fyrir eru eða jafnvel uppbyggingu nýrra, eins og mig minnir að sé til þingsályktun um fyrir Vestfirði. Við þekkjum umræðuna um Hornafjörð sem gæti verið skynsamleg leið fyrir einkaflug, fyrir ferjuflug, af því að það er öryggissjónarmið að geta komist þar sem er styst til landsins. Þar gæti þar af leiðandi verið völlur sem gæti nýst ef upp kæmi öryggisástand. Þá væri kominn alþjóðlegur völlur. Fleiri flugvelli má nefna, Alexandersflugvöll við Sauðárkrók o.fl.

En ég er sammála hv. þingmanni, við þurfum fyrst að ná utan um verkefnið núna. Eitt af því væri að leggja á svokallað varaflugvallagjald til að standa undir uppbyggingunni á millilandaflugvöllunum þannig að Isavia gæti gert það með sóma. Þá fjármuni sem við höfum í þjónustusamningi myndum við þá nota annars vegar til að halda áfram uppbyggingu á minni völlum en líka, samkvæmt hugmyndum um svokallaða skoska leið, til (Forseti hringir.) að niðurgreiða, endurgreiða miðaverð til íbúa á ákveðnum stöðum til þess að efla flugið sem almenningssamgöngur.