149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Prýðilegt andsvar hjá hv. formanni fjárlaganefndar og gefur mér tækifæri til að bæta aðeins við það sem ég ræddi í ræðu minni hér áðan.

Fyrst varðandi athugasemd hans um velferðarmálin og aukin framlög til þeirra. Það er alveg rétt að ef menn skoða lista yfir það í hvað framlög fara sést aukning í framlögum til velferðarmála, eins og öll undanfarin ár. En það sem veldur mér sérstökum áhyggjum er að það sé ekki verið að verja þessu fjármagni nógu skynsamlega. Í þessum málaflokki ekki hvað síst, sérstaklega með tilliti til þess hvernig þróunin verður hér næstu ár og áratugi, þurfum við skattgreiðendur og almenningur að fá sem mest fyrir peninginn. Þá hlýtur það að valda hv. formanni fjárlaganefndar jafn miklum áhyggjum og mér þegar hæstv. heilbrigðisráðherra virðist ekki taka það í mál að kaupa þjónustuna þar sem hún er best og ódýrust heldur vera fastur í því að nota tækifærið til að innleiða einhverja pólitíska stefnu, sem er þá kannski undantekning frá því sem ég var að segja varðandi heildarmyndina af því sem ríkisstjórnin gerir. Þessi ráðherra er í sínu horni að innleiða sínar pólitísku hugmyndir sem hafa verulegan kostnað og óhagræði í för með sér í þessum mikilvæga málaflokki í stað þess að nýta fjármagnið betur.

En varðandi fyrirspurn hv. þingmanns í lokin um hvernig við getum bætt úr hvað varðar framtíðarsýn og nýtingu fjármagns er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að endurmeta hvernig fjárlög eru unnin. Þetta er svo sem ekki nýtt vandamál. Það var gerð tilraun til þess sem hefur að mínu mati ekki heppnast alveg nógu vel. Við þurfum að taka miklu meira með í reikninginn heildaráhrif og langtímaáhrif af þeim ákvörðunum sem teknar eru. Við erum alltaf, finnst mér, of föst í því að hugsa bara um kostnaðinn og tekjurnar til 12 mánaða í senn og það þýðir að við tökum ekki ákvarðanir um skynsamleg útgjöld sem geta veitt þeim mun meiri tekjur í framtíðinni og finnum ekki heldur bestu sparnaðarleiðirnar.