149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Þegar ég sagði smátt og smátt átti ég ekki við að þetta væru nein hænufet. Það er þrátt fyrir allt verið að auka framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hraðar en til margra annarra stofnana á landinu og það er sannarlega, að ég tel, af þeim ástæðum sem þingmaðurinn rakti. Svo er eins og ég sagði áðan hægt að deila um hversu hratt þetta á að gerast og hvort bregðast eigi hraðar við. Ég, eins og hv. þingmaður, treysti hæstv. heilbrigðisráðherra til góðra verka í því efni.

Í seinna andsvarinu langar mig að ræða aðeins við hv. þingmann um hjúkrunarheimilin og þá aukningu á rekstrarframlagi sem er í breytingartillögum hv. fjárlaganefndar. Þar er verið að bæta nokkuð í, ekki í neinum dramatískum upphæðum en engu að síður um 100.000 kr. á ári á hvert rými á landsvísu. Við getum deilt um það hversu mikið eða lítið það er, en einnig er tekið fram í stjórnarsáttmálanum að vinna eigi að því að endurskoða rekstrargrunn þessara heimila.

Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það sem hv. þingmaður sagði, að ekki væri nóg að gert, er engu að síður stefnt að því að opnuð verði 200 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Af þeim eru 160 viðbót við þá tölu af rýmum sem fyrir er og að auki er gert ráð fyrir um 200 nýjum rýmum á landsvísu á næstu tveimur árum. Þetta eru allt framkvæmdir sem eru farnar af stað. Hafandi í huga að akkúrat í dag eru ríflega 400 manns á biðlistum (Forseti hringir.) held ég að þingmaðurinn geti verið mér sammála um að þetta er umtalsvert átak þótt auðvitað sé óboðlegt í sjálfu sér að fólk bíði lengi eftir sjálfsagðri þjónustu. (Forseti hringir.) Ég get verið þingmanninum sammála um það.